Skoðun

Ás­laug Arna er fram­tíðin og sóknarfærið er ungt fólk

Sybil Gréta Kristinsdóttir skrifar

Nú um helgina ganga Sjálfstæðismenn til landsfundar og velja sér formann. Frambjóðendurnir tveir eru sérlega frambærilegir og mannvalið sýnir svo ekki verður um villst að flokkurinn er ríkur af hæfileikafólki.

Nýleg könnun Gallups um sterkt fylgi þeirra beggja meðal landsmanna allra er tilefni til bjartsýni um framtíð flokksins þótt gefið hafi á bátinn undanfarin ár.

Könnunin varpar ekki síst ljósi á þann einstaka kost í fari Áslaugar Örnu að hún er fær um að sækja ungt fólk til lags við Sjálfstæðisflokkinn. Þar liggja sóknarfæri flokksins okkar til langrar framtíðar.

Ég hef verið viðloðandi starf Sjálfstæðisflokksins um áratugaskeið og verið svo lánssöm að fá að kynnast mörgum fulltrúum flokksins á þingi og í sveitarstjórnum á þeim tíma. Áslaug Arna er einstakur stjórnmálamaður. Hún hefur reynslu, dug, kjark og elju; er jákvæð og hefur trú á framtíðinni.

Styrkur flokksins hefur löngum falist í því að flokksmenn hafa verið óhræddir við að gefa nýrri kynslóð eftir sviðið. Ég held að sá tími sé enn á ný runninn upp og Áslaug Arna hefur allt til brunns að bera sem formaður Sjálfstæðisflokksins.

Í mínum huga er valið skýrt. Ég ætla að kjósa framtíðina á landsfundi um helgina.

Höfundur er Sjálfstæðismaður og fulltrúi í Sambandi eldri Sjálfstæðismanna.




Skoðun

Sjá meira


×