„Það verður farið á tveimur skipum að austan í kvöld, Polar Ammassak og Aðalsteini Jónssyni,“ segir fiskifræðingurinn Guðmundur J. Óskarsson, sviðsstjóri uppsjávarsviðs Hafrannsóknastofnunar.
Tveir vísindamenn frá Hafrannsóknastofnun verða um borð í hvoru skipi. Leitin mun einkum beinast að hafsvæðum út af Vestfjörðum og vestanverðu Norðurlandi.

„Markmiðið er að dekka í stórum dráttum sama svæði og Árni Friðriksson fór yfir fyrr í mánuðinum norðvestan til. Það á sem sagt að kanna hvort meira af hrygningarloðnu á leið til hrygningar hafi bæst við að norðan inn á svæðið. Stefnan er á að reyna að klára verkefnið áður en spáð óveður á föstudeginum skellur á,“ segir Guðmundur.
Spurður hvort einkum sé verið að leita að hugsanlegri vestangöngu svarar fiskifræðingurinn:
„Þetta beinist að loðnu sem mun annaðhvort ganga vestur fyrir landið eða jafnvel inn að norðurströndinni til hrygningar.“

Miklir fjárhagslegir hagsmunir eru undir að hægt verði að veiða meiri loðnu áður en hún hrygnir og drepst. Sá takmarkaði kvóti, sem gefinn var út fyrir helgi, er vart nema hálfur farmur fyrir helming flotans en er samt talinn geta skilað um eins milljarðs króna útflutningstekjum.
Í fréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi mátti sjá loðnu landað í Vestmannaeyjum í gærmorgun til heilfrystingar hjá Vinnslustöðinni:
Íslenskar útgerðir fengu úthlutað um 4.600 tonna loðnukvóta síðastliðinn fimmtudag. Þá þegar voru útgerðarmenn farnir að þrýsta á að efnt yrði til nýrrar leitar, eins og fjallað var um í þessari frétt: