Handbolti

Segjast ekki eiga pening og hand­bolta­konunum fórnað

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nivi Jensen Petersen er leikmaður grænlenska handboltalandsliðsins sem átti möguleika á því að tryggja sig inn á annað heimsmeistaramótið í röð.
Nivi Jensen Petersen er leikmaður grænlenska handboltalandsliðsins sem átti möguleika á því að tryggja sig inn á annað heimsmeistaramótið í röð. EPA-EFE/Beate Oma Dahle

Grænlenska handboltasambandið hefur ekki efni á að senda kvennalandsliðið sitt í undankeppni heimsmeistaramótsins í vor. Liðið fer því ekki á annað HM í röð.

Grænlensku stelpurnar komust inn á síðasta heimsmeistaramót kvenna og mættu meðal annars íslenska landsliðinu í Forsetabikarnum.

Það var í fyrsta sinn í 22 ár sem grænlensku konurnar voru með á HM í handbolta.

Danska ríkisútvarpið segir frá vandamálinu sem grænlenska sambandið stendur frammi fyrir.

Undankeppni Norður- og Mið-Ameríku fer fram í Mexíkó í ár.

„Það er ekki til peningur til að taka þá í undankeppni HM sem fer fram í Mexíkó í apríl,“ skrifaði sambandið á samfélagsmiðla sína.

„Við verðum að sýna ábyrgð verðandi rekstur sambandsins og passa upp að við getum borgað okkar reikninga. Við þurfum að taka erfiðar ákvarðanir og setja annað í forgang. Við verðum því að draga liðið úr keppni,“ sagði stjórnarformaðurinn Carsten Olsen við DR.

„Það er mér þungt í hjarta að við þurfum að skera niður og það bitni á konunum. Staðan er bara sú að ef við eyðum tólf milljónum í þetta verkefni þá verður ekki peningur fyrir neitt annað lið á næsta ári,“ sagði Jakob Larsen, ráðgjafi sambandsins, við DR.

Grænlenska sambandið segist þó mögulega getað sótt um áður en fresturinn rennur út finni sambandið óvænt pening fyrir þátttökunni. Það lítur ekki út fyrir það eins og staðan er núna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×