Fótbolti

„Full­komið kvöld“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Mbappé kom Real yfir snemma leiks.
Mbappé kom Real yfir snemma leiks. EPA-EFE/JUANJO MARTIN

Kylian Mbappé skoraði öll þrjú mörkin þegar Evrópumeistarar Real Madríd unnu 3-1 sigur á Manchester City og tryggðu sér farseðilinn í 16-liða úrslit Meistaradeildar Evrópu. Eðlilega talaði hann um hið fullkomna kvöld að leik loknum.

„Fullkomið kvöld fyrir liðið. Við vildum vinna og við vildum komast áfram í næstu umferð. Fyrir okkur er rökrétt að Real Madríd sé í næstu umferð Meistaradeildarinnar.“

„Það er alltaf erfitt að spila gegn Manchester City en við vissum að við værum virkilega sterkir á heimavelli. Við spiluðum betur sem lið og gátum glatt stuðningsfólk okkar. Við þurfum að halda áfram á þessari braut ef við ætlum okkur að vinna það sem við viljum vinna á þessari leiktíð.“

„Ég vil spila vel hér og vil leggja mitt af mörkum á þessari leiktíð. Ég vil skrifa söguna með Real Madríd. Ég er búinn með aðlögunartíma minn og nú þarf ég að sýna hvað ég get.“

Real gæti mætt Atlético Madríd eða Bayer Leverkusen í 16-liða úrslitum.

„Raunveruleikinn er sá að bæði eru mjög góð lið. Sama hvort það verður þá verður það erfið viðureign. En fyrir mér er betra að spila við Atlético þar sem við þurfum ekki að ferðast. Við höfum þurft að ferðast mikið nú þegar. Báðir leikir verða erfiðir en það væri auðveldara að þurfa ekki að ferðast,“ sagði Mbappé að lokum.

Mbappé hefur nú skorað 27 mörk og gefið 3 stoðsendingar í 37 leikjum fyrir Real Madríd.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×