Körfubolti

„Efri hlutinn gefur okkur smá and­rými“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Jamil Abiad, þjálfari Vals
Jamil Abiad, þjálfari Vals vísir / pawel

„Risastór sigur hjá stelpunum. Þetta var skref í rétta átt og gefur okkur mikið sjálfstraust, það er gaman að sjá alla erfiðisvinnuna sem þær leggja inn vera að skila sér inn á völlinn,“ sagði Jamil Abiad, þjálfari Vals í Bónus deild kvenna, eftir sex stiga sigur gegn Hamar/Þór. Deildin skiptist nú til helminga og þökk sé sigrinum í kvöld verður Valur í efri hlutanum.

„Þetta var fram og til baka, háhraða leikur, við vissum að þær myndu pressa á okkur og þær eru með frábæra leikmenn. Ég er bara ánægður með að hafa náð að nýta tækifærin sem okkur gáfust…

Við stóðum vel í vörn og náðum góðum stoppum, vörnin hefur verið okkar einkennismerki í vetur, ég held að við séum besta varnarlið deildarinnar með aðeins 71,2 fengin á okkur að meðaltali. Það hefur verið uppistaðan í okkar leik og það sem ég hef lagt mesta áherslu á.

Við náðum mikilvægum stoppum undir lok leiksins, og nýttum okkur það hinum megin á vellinum með nokkrum góðum skotum. Það er klisja, en vörn vinnur leiki og við sýndum það,“ sagði Jamil um þróun leiksins.

Andrými í efri hlutanum

Þökk sé sigrinum, og samtíma tapi Tindastóls gegn Haukum, endar Valur í efri hluta deildarinnar. Sem hlýtur að vera ástæða til að fagna.

„Ekki spurning. Þetta verður hörkuslagur í neðri hlutanum, aðeins einn leikur milli liða og hlutirnir gætu farið hvernig sem er. Efri hlutinn gefur okkur smá andrými, að vera með fimmta sætið tryggt.“

Leikjaálagið verður væntanlega mikið þar sem átta leikir eru framundan gegn fjórum efstu liðum deildarinnar, þar til úrslitakeppnin hefst.

„Við viljum að allir spili sínar mínútur áfram, við munum ekki takmarka mínútur hjá neinum leikmönnum. Við viljum bæta okkar leik, því það er margt sem við getum enn gert betur. Við munum lagfæra það eins og kostur er, kannski spila á aðeins fleiri leikmönnum, en aðallega erum við að horfa á smáatriði sem við þurfum að bæta,“ sagði Jamil að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×