Líkt og ítarlega hefur verið fjallað um sendi stjórn Arion banka stjórn Íslandsbanka erindi á föstudag þar sem áhuga á samruna bankanna tveggja var lýst yfir. Sameinaður banki yrði sá stærsti á markaði hér á landi, um þriðjungi stærri en Landsbankinn.
Ríkissjóður er enn sem komið er stærsti einstaki eigandi Íslandsbanka með 42,5 prósenta eignarhlut, sem stendur til að selja í opnu útboði á næstu misserum. Gengi samruni Arion banka og Íslandsbanka í gegn fyrir söluna, yrði ríkið áfram stærsti einstaki hluthafi sameinaðs bankans.
Talsvert um efasemdaraddir
Daði Már Kristófersson, fjármála- og efnahagsráðherra, sagði í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi að hann teldi samrunann ekki myndu koma til með að auka samkeppni á fjármálamarkaði. Skoða yrði heildarhagsmuni allrar þjóðarinnar.
Þá hafa formenn bæði efnahags- og viðskiptanefndar og fjárlaganefndar lýst yfir miklum efasemdum um ágæti mögulegs samruna. Það hefur formaður Neytendasamtakanna gert sömuleiðis.
Ríkið ekki lengur í meirihluta
Margrét Helga Erlingsdóttir fréttamaður spurði Kristrúnu Frostadóttur forsætisráðherra út í mögulegan samruna, að loknum ríkisstjórnarfundi í morgun.
„Eins og staðan er núna er stjórn Íslandsbanka að taka þetta tilboð til skoðunar. Auðvitað er staðan sú að íslenska ríkið er ekki eini aðilinn sem situr þarna við borðið. Íslenska ríkið er komið undir meirihluta í Íslandsbanka. Við verðum auðvitað að gefa fólki eðlilegan tíma til þess að fara í gegnum þá stöðu sem komin er upp,“ segir Kristrún.
Líta verði til almannahagsmuna
Sem áður segir hefur Kristrún efasemdir um að Samkeppniseftirlitið myndi heimila samrunann, ef til hans kæmi, miðað við fyrri ákvarðanir hans á fjármálamarkaði.
„Það kæmi mér verulega á óvart ef þessi samruni yrði að veruleika.“
„Ef þú spyrð mig um mína pólitíku skoðun, þá skil ég alveg þau sjónarmið að fólk vilji ýta undir skilvirkni og hagræðingu. Það breytir því samt ekki að málin flækjast þegar kemur að neytendahliðinni, markaðslegu aðhaldi og hvert hagræðing rennur. Ég er kosin og við öll hérna í pólitík, til að gæta almannahagsmuna. Við þurfum að gæta almannahagsmuna í þessu máli og þess vegna munum við fylgjast mjög vel með á næstu dögum,“ segir Kristrún.