Sport

Fljótasti maður heims keppir við fljótasta manninn í NFL

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Noah Lyles er hér með skilaboð til Hill eftir hlaup í upphafi febrúar.
Noah Lyles er hér með skilaboð til Hill eftir hlaup í upphafi febrúar. vísir/getty

Fljótasti maður heims í dag, Bandaríkjamaðurinn Noah Lyles, og Tyreek Hill, leikmaður Miami Dolphins, hafa ákveðið að keppa í spretthlaupi í sumar.

Þeir hafa skipst á skotum síðustu mánuði en Hill, sem hefur verið fljótasti maður NFL-deildarinnar síðustu ár, byrjaði er hann lýsti því yfir að hann gæti unnið Lyles í spretthlaupi.

Lyles er ríkjandi Ólympíumeistari í 100 metra hlaupi og þar af leiðandi fljótasti maður heims.

„Ég hef lengi ætlað mér að sýna fólki hvað alvöru hraði er,“ sagði Hill fullur sjálfstrausts.

Nákvæm dagsetning á hlaupinu liggur ekki fyrir en það verður líklega í byrjun sumars.

Lengd hlaupsins hefur heldur ekki verið ákveðin en hún verður líklega 50-80 metrar. 60 metra hlaup þykir líklegast.

„Ég er fljótasti maður heims. Ég sýni það alltaf á stærsta sviðinu. Ef ég þarf líka að hrista Tyreek af mér til að sanna það þá geri ég það,“ sagði Lyles en hann hélt uppi skilti eftir sigur í 60 metra hlaupi á dögunum þar sem hann ögraði Hill.

Þessi viðburður á klárlega eftir að vekja verðskuldaða athygli og pressan verður öll á Lyles.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×