Hér að neðan má finna nokkrar öðruvísi og skemmtilegar hugmyndir að samveru fyrir Valentínusardaginn.
Heilsulind heima
Skapið rómantíska og afslappandi Spa-stemningu heima fyrir. Kveikið á kertum, setjið notalega tónlist á fóninn, berið á ykkur maska og farið í heitt bað saman. Ef þið viljið færa upplifunina á hærra plan gætuð þið pantað nuddara heim.

Framandi réttir
Eldið eitthvað nýtt og spennandi saman sem þið hafið aldrei prófað áður. Kaupið hráefnin í sérvöruverslun sem býður uppá fjölbreytt vöruúrval frá framandi landi. Skemmtileg og öðruvísi samverustund!
Óvissuferð
Farið saman í bíltúr án þess að hafa neinn sérstakan áfangastað í huga og látið ferðalagið leiða það í ljós. Þetta er frábær leið til að njóta samverunnar án nokkurrar pressu.
Veisla fyrir bragðlaukana
Farðu með ástinni í smakkferð um veitingahús borgarinnar þar sem þið pantið aðeins einn eða tvo litla rétti á hverjum stað. Þetta er sniðug leið til að kynnast nýjum stöðum og sannkölluð veisla fyrir bragðlaukana.
Ástarsagan ykkar
Leiddu ástina þína í gegnum ástarsöguna ykkar. Byrjaðu á því að fara á staðinn þar sem þið kynnust, þar sem þið kysstust fyrst, þar sem þið byrjuðuð að búa saman, og svo framvegis. Það er alltaf gaman að rifja upp góða og fallega tíma sem iljar manni um hjartarætur.

Framtíðardraumar og markmið
Valentínusardagurinn er frábær dagur til að huga að ástinni og sambandinu. Þá er einnig sniðugt að nýta daginn í að skrifa niður drauma og framtíðarmarkmið, stór sem smá.
Lautarferð innandyra
Setjið teppi á gólfið og farið í rómantíska lautarferð heima í stofu. Komið ykkur vel fyrir með ljúfri tónlist og góðu snarli. Þetta þarf oft ekki að vera flókið. Einfalt er oft best.
Málið mynd af hvoru öðru
Málið mynd hvert af öðru án þess að sýna útkomuna fyrr en þið eruð búin. Skapandi og skemmtileg iðja sem kemur ykkur mjög líklega til að hlæja saman.
