Fótbolti

Ari Freyr og Ólafur Ingi sam­einaðir á ný í U21-landsliðinu

Sindri Sverrisson skrifar
Ari Freyr Skúlason er á leið í nýtt verkefni hjá KSÍ eftir að hafa verið landsliðsmaður um árabil.
Ari Freyr Skúlason er á leið í nýtt verkefni hjá KSÍ eftir að hafa verið landsliðsmaður um árabil. MYND/STÖÐ 2 SPORT

Ari Freyr Skúlason, vinstri bakvörður gullaldarliðs Íslands í fótbolta, verður aðstoðarþjálfari U21-landsliðsins í komandi leikjum.

Ari mun því aðstoða Ólaf Inga Skúlason en þeir voru saman í íslenska A-landsliðinu um árabil og fóru til að mynda saman á HM í Rússlandi 2018.

Ari leysir af hólmi Lúðvík Gunnarsson sem verður staddur í öðru verkefni með U17-liði karla, þegar U21-landsliðið mætir Ungverjalandi og Skotlandi í vináttuleikjum á Pinatar Arena á Spáni í mars.

Fyrri leikurinn er við Ungverjaland föstudaginn 21. mars klukkan 13 og sá seinni við Skotland þriðjudaginn 25. mars klukkan 13.

Ari, sem á að baki 83 A-landsleiki og lék tíu leiki fyrir U21-landsliðið á sínum tíma, lagði skóna á hilluna haustið 2023 og sneri sér að þjálfun. Hann sinnir í dag þjálfarastarfi hjá Norrköping þar sem hann hjálpar ungum leikmönnum að fóta sig í aðalliði félagsins.

U21-landsliðið undirbýr sig með leikjunum í mars fyrir komandi undankeppni fyrir EM 2027. Liðið leikur í C-riðli með Frakklandi, Sviss, Færeyjum, Lúxemborg og Eistlandi. Fyrsti leikur Íslands er við Færeyjar 4. september.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×