Íbúar eru hvattir til að vera ekki á ferð á meðan veðrið gengur yfir en gert sé ráð fyrir að það taki að lægja um klukkan 18 í kvöld, segir í tilkynningunni.
Þar er einnig greint frá því að tilkynningar hafi borist um foktjón í gær, meðal annars á Stöðvarfirði, Egilsstöðum, Fáskrúðsfirði og Seyðisfirði.
Lögreglan á Vestfjörðum hefur birt færslu á Facebook þar sem segir að aðeins eitt „óveðursverkefni“ hafi komið upp þar.
Um var að ræða flotbryggju á Þingeyri sem losnaði en björgunarsveitarfólk í Dýrafirði fór í málið og tókst að tryggja að ekki yrði alvarlegt tjón.
„Af öryggisástæðum var veginum milli Súðavíkur og Ísafjarðar lokað í gærkveldi þegar snjóflóðahætta varð meiri. Tveir vegfarendur, á leið til Bolungarvíkur, urðu innlyksa í Súðavík rétt um miðnættið. Okkar fulltrúar í sameiginlegri almannavarnanefnd Súðavíkurhrepps og Ísafjarðarbæjar, skutu skjólshúsi yfir þá,“ segir í Facebook-færslunni.
„Enn er rauð veðurviðvörun fyrir Strandir í dag en appelsínugul veðurviðvörun fyrir sunnanverða Vestfirði. Því er spáð að veðrið muni ganga hratt niður þegar líður á daginn.
Sem fyrr eru þau sem hyggja á ferðir milli byggðalaga hvött til að gæta að færð og veðri á vegum áður en lagt er af stað. Það má gera á heimasíðu Vegagerðarinnar eða hringja í 1777.“