Viggó var á meðal betri leikmanna Íslands á mótinu og spilaði nánast allar mínútur í hægri skyttu stöðunni í fjarveru Ómars Inga Magnússonar. Viggó var markahæstur Íslendinga á mótinu en álagið virðist eitthvað hafa haft áhrif.
Handball-World greinir frá því að hann glími við eymsli í hné og missi af næstu leikjum.
Hann var keyptur til Erlangen frá Leipzig skömmu fyrir HM en á enn eftir að spila sinn fyrsta leik fyrir liðið. Serbinn Milos Kos fór sömu leið en Erlangen berst fyrir lífi sínu í deildinni.
Erlangen mætir Flensburg á sunnudag í fyrsta leik liðsins á nýju ári og mætir Hamburg viku síðar.