Innlent

Vilja finna fimm Ís­lendinga og vísa þeim úr landi

Samúel Karl Ólason skrifar
Starfsmaður innflytjendastofunar Bandaríkjanna (ICE).
Starfsmaður innflytjendastofunar Bandaríkjanna (ICE). Getty/David Dee

Fimm manns með íslenskan ríkisborgararétt voru undir lok síðasta árs á lista yfirvalda í Bandaríkjunum yfir þá sem hafa fengið höfnun um dvalarleyfi og á að vísa úr landi. Í heildina eru tæp ein og hálf milljón manna á listanum.

Listinn er frá því í nóvember og er yfirlit yfir það frá hvaða ríkjum fólk sem hefur verið hafnað um landvistarleyfi en hefur ekki verið vísað úr landi enn er. Hann var svar við fyrirspurn frá Fox News til Innflytjendastofnunar Bandaríkjanna (ICE) fyrir frétt sem birt var þann 11. desember síðastliðinn.

Listinn tengist hertum aðgerðum ríkisstjórnar Donalds Trump, hvað varðar innflytjendamál og ætlanir þeirra að vísa fjölda innflytjenda sem eru ólöglega í Bandaríkjunum úr landi á næstunni ekki með beinum hætti.

Í frétt Fox segir að samkvæmt gögnum ICE hafi rúmlega sjö milljónir manna fengið skipun um að fara frá Bandaríkjunum eftir höfnun um dvalarleyfi. Þar af eru flestir þegar í haldi ICE eða annarra löggæslustofnana.

Rúmlega 1,4 milljónir manna eru hins vegar ekki í haldi og er í raun ekki vitað hvar þau eru. Starfsmenn stofnunarinnar telja að hægt verði að vísa rúmlega helmingi þeirra úr landi.

Þegar kemur að þeim ríkjum sem eiga flesta á listanum er Mexíkó í efsta sæti (252.044), Gvatemala í öðru (253.413) og El Salvador í þriðja (203.822)

Í ársskýrslu ICE fyrir 2024 segir svo að einum Íslendingi hafi verið vísað frá Bandaríkjunum í fyrra. Árið 2023 voru þeir tveir og svo einn, tveir og einn á ári fyrir það.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×