Handbolti

Danska lands­liðið hefur ekki tapað leik á HM í átta ár

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það hefur verið rosalega gaman hjá danska handboltalandsliðinu á síðustu fjórum heimsmeistaramótum.
Það hefur verið rosalega gaman hjá danska handboltalandsliðinu á síðustu fjórum heimsmeistaramótum. Getty/Mateusz Slodkowski

Dagur Sigurðsson og lærisveinar hans í króatíska landsliðinu fá það krefjandi verkefni í dag að verða fyrsta liðið frá árinu 2017 til að vinna Dani á heimsmeistaramóti.

Danir hafa unnið alla átta leiki sína á þessu heimsmeistaramóti og flesta með miklum mun.

Sigurgangan nær þó miklu lengra en þetta. Danir geta unnið fjórða heimsmeistaratitilinn í röð því þeir fögnuðu einnig sigri á HM 2019, 2021 og 2023.

Það þarf að fara 2933 daga aftur í tímann til að finna síðasta tapleik Dana á HM. Hann kom 22. janúar 2017. Danska ríkisútvarpið fjallar um þetta fyrir úrslitaleikinn.

Það var leikur á móti Ungverjum í sextán liða úrslitum á HM í Frakklandi sem þeir ungversku unnu 27-25. Þjálfari Dana í þeim leik var Guðmundur Guðmundsson.

Nikolaj Jacobsen tók við liðinu eftir mótið og hefur stýrt því síðan með frábærum árangri.

Á síðustu fjórum heimsmeistaramótum hafa Danir unnið 33 af 35 leikjum og gert tvö jafntefli. Annað jafnteflið endaði í vítakeppni sem Danir unnu.

Hitt jafnteflið og eina kvöldið sem Danir hafa ekki fagnað sigri í leik á heimsmeistaramóti á þessum tíma var leikur á móti Króötum í milliriðli á HM fyrir tveimur árum. Leikur þjóðanna endaði með 32-32 jafntefli.

Danir unnu alla tíu leiki sína á HM 2019 og geta því endurtekið það afrek á HM í ár. Danir eru líka á góðri leið með því að með meira en hundrað mörk í plús í leikjum sínum en fyrir þetta heimsmeistaramót voru þeir mest með 94 mörk í plús í tíu leikjum á HM 2019.

Á HM 2025 hafa anir unnið átta leiki með samtals 107 mörkum eða 13,4 mörkum að meðaltali í leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×