Handbolti

Snorri Steinn um um­mæli Gísla: „Auð­vitað ertu von­svikinn“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gísli Þorgeir Kristjánsson gagnrýndi landsliðsþjálfarann eftir síðasta leik Íslands á HM í handbolta en Snorri Steinn Guðjónsson segir að þeir hafi rætt málin eftir viðtalið og að málið sé úr sögunni.
Gísli Þorgeir Kristjánsson gagnrýndi landsliðsþjálfarann eftir síðasta leik Íslands á HM í handbolta en Snorri Steinn Guðjónsson segir að þeir hafi rætt málin eftir viðtalið og að málið sé úr sögunni. Vísir/Vilhelm

Eitt af stóru fréttamálunum eftir að íslenska handboltalandsliðið datt úr leik á heimsmeistaramótinu á dögunum var viðtal við landsliðsmanninn Gísla Þorgeir Kristjánsson.

Gísli var auðvitað mjög svekktur með úrslitin en vildi kenna landsliðsþjálfaranum Snorra Steini Guðjónssyni um hvernig fór í tapleiknum á móti Króatíu.

Vorum „outcoachaðir“ á öllum sviðum

„Við vorum „outcoachaðir“ á öllum sviðum. Þeir komu okkur á óvart með þessari 5-1 vörn og við áttum að vera með miklu betri svör í þeim leik. Það er alveg hægt að segja fullt um að þeir hafi verið með einhverja geðveiki og slíkt, en við þurfum líka að horfa á okkur sjálfa. Við erum helvíti góðir handboltalega og skulum taka þá einu sinni á gæðum, ekki bara á einhverri geðveiki. Mér fannst við detta á sama „level“ og á móti Ungverjum í fyrra. Leikplanið fór út um gluggann eftir tvær mínútur. Við þurfum að skoða þetta. Maður lifir og lærir í þessum bransa,“ sagði Gísli í viðtalinu við Vísi.

Klippa: Snorri Steinn um viðtalið fræga við Gísla Þorgeir

Aron Guðmundsson fór yfir mótið með Snorra Stein Guðjónssyni og spurði landsliðsþjálfarann meðal annars út í viðtalið við Gísla. Aron spurði hvort Snorri væri vonsvikinn með að Gísli hafi stigið fram með þessum hætti.

„Já, já, Það er það alveg. Auðvitað ertu vonsvikinn. Hans meining var örugglega ekki að kasta mér fyrir rútuna og ég tek því ekki þannig,“ sagði Snorri Steinn.

Áttu gott spjall

„Hann kom bara til mín og útskýrði sitt mál,“ sagði Snorri

„Auðvitað eru það vonbrigði þegar þú lest eitthvað svoleiðis. Þetta er líka bara fínn skóli og partur af því að vera þjálfari að díla við eitthvað svona,“ sagði Snorri.

„Við áttum bara gott spjall út í Króatíu og fyrir mína parta er málinu lokið,“ sagði Snorri en það má sjá þetta brot úr viðtalinu hér fyrir ofan.

Allt viðtalið við Snorra Stein má síðan finna í Besta sætinu sem er aðgengilegt á hlaðvarpsveitum en einnig hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×