Eftir ótrúlegan sigur Króata gegn Ungverjum í Zagreb fyrr í kvöld þá hélt spennan áfram þar í leik Frakklands og Egyptalands.
Nedim Remili skoraði þegar hálf mínúta var eftir og kom Frökkum í 33-32 en Yahia Omar tókst að jafna metin þegar örfáar sekúndur voru eftir.
Sá tími dugði þó Frökkum því Luka Karabatic skoraði úr miðjuhringnum í autt mark Egypta sem höfðu tekið markvörð sinn af velli til að fjölga í lokasókn sinni.
Það verða því Evrópumeistarar Frakklands og Króatía sem mætast í undanúrslitum á fimmtudaginn í Zagreb.
Útlitið var gott hjá Frökkum í hálfleik. Þeir nýttu sér mistök í sóknarleik Egypta og skoruðu fjögur síðustu mörkin fyrir hléið. Melvyn Richardson skoraði í þann mund sem flautað var til hálfleiks og kom Frökkum í 18-14.
En Egyptar sýndu styrk sinn í seinni hálfleik og náðu fljótlega að jafna metin, og var gríðarleg spenna í leiknum síðasta korterið og ekki síst á lokamínútunni eins og fyrr segir.
Draumur Egypta um að komast í undanúrslit HM, í annað sinn í sögunni og það fyrsta síðan árið 2001, rann hins vegar út.