Skoðun

Ný ríkis­stjórn, traust og at­hygli

Guðmundur F. Magnússon skrifar

Ný ríkisstjórn er tekin við og byrjar vel með stuttum en skýrum stjórnarsáttmála, fækkun ráðuneyta um eitt, áætlunum um sameiningar ríkisstofnana og skynsamlegri ákvörðun varðandi Evrópusambandið, þar sem þjóðin fær loksins að segja af eða á. Vísanir „Valkyrja“ í hagsýnar húsmæður og ráðdeild í ríkisrekstri slá tón sem hefur vantað í íslenskum stjórnmálum hingað til og minnir á kynslóð ömmu og afa, þar sem nýtni og hagsýni voru einkunnarorðin. Áherslan á að skapa traust milli formannanna þriggja fyrst og stjórnarflokkanna í kjölfarið ætti að gefa gott veganesti inn í samstarfið framundan. Við sjáum sterkar vísbendingar um að það eigi að vinna öðruvísi en verið hefur og það er vel.

Þetta óformlega styrkti stoðir samstarfsins strax í upphafi áður en málefnavinnan fór á fullt. Að þétta hópinn er oft vanmetið á vinnustöðum, hvort sem það er að fá sér kakó með rjóma saman, kíkja saman í ræktina í hádeginu eða eitthvað allt annað eru traust og góður andi lykilatriði í samstarfi, því við erum víst manneskjur en ekki vélmenni, tölvur eða gervigreind.

„Farðu bara í peningavélina“

Vel þekkt er að kjósendur vilja aukin framlög í ýmsa málaflokka því það þarf að leggja vegi, bora göng og byggja sjúkrahús. Kjósendur hafa yfirleitt mun færri óskir um niðurskurð á móti til þess að fjármagna nýjar framkvæmdir og aukin framlög. Heyrði sögu af íslensku barni í Bandaríkjunum rétt fyrir aldamót, sem sá alls konar stórt og glæsilegt dót í búðagluggum og bað mömmu sína að kaupa það þegar þau gengu fram hjá. Mamman sagði barninu að því miður væru ekki til peningar fyrir öllu þessu dóti. „Farðu bara í peningavélina,“ svaraði barnið þá og átti við hraðbanka. Það hafði séð að alltaf þegar mömmu þess vantaði peninga fór hún í „peningavélina“, ýtti á nokkra takka og sótti seðla, ekkert mál. Mesta furða að konan skyldi ekki sjá þessa augljósu lausn á vandanum þegar mest á reyndi.

Á vissan hátt erum við kjósendur eins og barnið og ríkisstjórnin eins og mamman, því við viljum alls konar frá ríkinu sem kostar peninga en höfum enga yfirsýn á fjármálin og viljum helst ekkert heyra um sparnað eða forgangsröðun. Ef stjórnmálamenn segja að það séu ekki til peningar fyrir öllu þessu svörum við: „Farðu bara í fjármálaráðuneytið.“ eða „Sæktu bara seðla í Seðlabankann.“ Engin vandamál, bara lausnir.

Þetta er einmitt ein af ástæðum þess að óskin um sparnaðarráð frá almenningi er frábært framtak, því hún vekur okkur til umhugsunar á jákvæðan hátt um að það þarf líka að spara, ekki bara eyða. En meginástæðan er þó að þar gætu komið inn hentugar hugmyndir um hagræðingu sem hrint verður í framkvæmd.

Magn umfram gæði? Sundrung eða samstarf?

Úrslit kosninganna voru jákvæð að mörgu leyti, m.a. fækkun flokka á þingi sem þýðir að öðru óbreyttu að þingið ætti að verða skilvirkara. Lýðræði og skilvirkni geta vel farið saman en þar hefur mikið vantað upp á hingað til. Málþóf er enn eitt helsta valdatæki stjórnarandstöðunnar en í raun stórfurðuleg hefð. Þætti eðlilegt að einhver röflaði um ekki neitt í klukkutíma af því að hann sætti sig ekki við ákvörðun meirihluta stjórnar eða hluthafafundar í fyrirtæki og aðrir þyrftu að sitja undir því? Af hverju þykja þetta eðlileg vinnubrögð á Alþingi þegar búið er að fjalla um mál í nefndum? Tíminn er peningar og í þessu tilviki peningar almennings.

Almenningur sér þó bara toppinn á ísjakanum í störfum þingmanna, þar sem stærstur hluti vinnunnar fer fram á lokuðum nefndafundum. Miðað við það litla sem við sjáum eru næg tækifæri til úrbóta, s.s. í aukinni skilvirkni og bættri vinnustaðamenningu.

Fjölgun flokka undanfarin ár hefur verið meðal þess sem hefur torveldað stjórnarmyndun og samkomulag á þingi. Hver flokkur kostar ríkissjóð töluverðar upphæðir í styrkjum og of margir flokkar í þinginu þýða bara aukna sundrungu á tímum þar sem þörf er á auknu samstarfi. Á sama tíma má segja að það sé viss missir að fólki og flokkum sem horfið hafa af þingi. Píratar hafa t.a.m. komið málum á dagskrá sem aðrir flokkar hafa tekið upp í kjölfarið og sama má segja um VG, sem komu umhverfismálum á kortið í stjórnmálum hérlendis.

Skautun og traust til fjölmiðla

Undanfarin ár hefur samkennd mín með fólki í stjórnmálum á Íslandi almennt aukist, m.a. vegna sleggjudóma og uppnefna um það árum saman. Nærtæk dæmi eru Bjarni Ben, Þorgerður Katrín, Dagur B., Katrín Jakobsdóttir, Sigmundur og Svandís. Þau eru ekki hafin yfir gagnrýni frekar en aðrir en gagnrýnin ætti að vera málefnaleg. Sumt fólk í þessu þjóðfélagi virðist ekkert hafa til málanna að leggja nema skítkast og uppnefni. Hvaða erindi á slíkt í umræðuna og hvernig gagnast það?

„Hún er með þroska á við fimm ára barn.“ – þetta skrifaði ónefnd kona í athugasemd á samfélagsmiðlasíðu fjölmiðils við frétt um ónefnda þingkonu. Óþarft er að taka fleiri dæmi, við höfum flest séð ógeðfelldar athugasemdir í þessum dúr um fólk í stjórnmálum, athugasemdir sem segja ekkert um stjórnmálafólkið en allt um þá sem skrifa níðið.

Nafnlaust ritstjórnarefni Viðskiptablaðsins fellur oft í sama flokk og er stundum einfaldlega illa ígrundað skítkast með persónuníði í bland. Þar virðast menn líka leyfa sér meira í skjóli nafnleyndarinnar en skreyta sig í staðinn með dulnefnum úr goðafræðinni, Huginn og Muninn, Týr og Óðinn. Þetta eru dæmi um það sem felst í skautun. Traust til fjölmiðla hefur ítrekað mælst lítið í könnunum. Þetta á bæði við á miðlum sem hafa talist vinstri sinnaðir og til hægri hér á landi. Ritstjórnarefnið sýnir oft skýrustu dæmin en þau sjást líka í fréttaflutningi viðkomandi miðla. Er hægt að treysta fréttaflutningi miðla sem birta ítrekað ómálefnalegt ritstjórnarefni eins og Viðskiptablaðið og fleiri hafa gert? Umfjöllun þess er vissulega vægari en margt annað í fjölmiðlum en nærtæk hér því ég les þó enn margt af efni blaðsins. Hætti að lesa tvo aðra innlenda miðla fyrir löngu því traustið var alveg farið.

Traust almennings eykst aðeins með vandaðri vinnubrögðum fjölmiðla. Fólk getur auðvitað sleppt því að fylgjast með fjölmiðlum en það er engin lausn og getur varla verið markmið miðlanna. Hlutverk fjölmiðla er að upplýsa almenning og veita aðhald, ómálefnaleg skrif gera hvorugt heldur afvegaleiða þau umræðuna. Trúverðugleiki og traust er verðmætasta eign fjölmiðla. Upplýsingahlutverkið er mikilvægara nú en áður, því við lifum í heimi falsfrétta og upplýsingaóreiðu.

Athygli er auðlind

Það er óheillaþróun á umræðuhefð í lýðræðisríki ef hófsamari raddir koma ekki fram opinberlega af ótta við viðbrögð æsingafólks, sem kynnir sér mál illa en hefur samt yfirleitt sterkustu skoðanirnar. Ýkt en vel þekkt dæmi er fólk sem kommentar upphrópun við frétt en hefur greinilega ekki lesið fréttina, bara fyrirsögnina. Það er auðvelt að hafa sterkar skoðanir sem einhver Lalli á lyklaborðinu í fílabeinsturni úti í bæ sem sér ekki heildarmyndina, bara flísina í auga náungans en ekki bjálkann í sínu eigin.

Dómstóll götunnar er oft fámennir en háværir hópar sem reyna að hafa vit fyrir fjöldanum í afmörkuðum málum og virðast halda að þau mál séu einu málin sem þurfi að sinna á Alþingi. Dómstóll götunnar á ekki að stýra þjóðfélagsumræðunni og sterkar skoðanir sem vekja athygli eru ekki endilega fréttaefni eins og fjölmiðlar virðast stundum halda. Það þarf ekki alltaf að elta ólar við nýjasta tístið í Trump eða Musk frekar en aðrar skoðanir sem vekja furðu flestra. Athygli fjölmiðla (og almennings) er oft ekki í nokkru samræmi við mikilvægi mála. Þarf t.d. að fjalla svona mikið um umdeilda kveðju Musk á dögunum?

Höfum hugfast að menn eins og Trump nærast á athyglinni og að það sem við veitum athygli vex oft og dafnar. Digurbarkalegar yfirlýsingar hans um Grænland eru gott dæmi, sem hann notar til að draga athyglina frá erfiðari málum heima fyrir og fjölmiðlar ganga beint í gildruna. Trump er meistari smjörklípunnar, ansi yfirlýsingaglaður en mismikil alvara að baki. Athygli er auðlind, förum vel með hana.

Tal um svikin kosningaloforð er oft sérstakt í ljósi þess að hér er áralöng hefð fyrir samsteypustjórnum. Enginn flokkur er í stöðu til að fá öll sín stefnumál í gegn né að lofa einu eða neinu fyrir kosningar, því það þarf alltaf að semja. Afar sjaldgæft er að flokkar setji stefnumál fram sem ófrávíkjanlegar kröfur fyrir kosningar, enda væru þeir þá nánast að útiloka sig frá stjórnarsetu fyrir fram. Samt gasprar fólk um svikin loforð, jafnvel blaðamenn og kjörnir fulltrúar sem vita betur en svo. Flokkar hafa meiri möguleika til áhrifa innan stjórnar en utan. Nú erum við í þriðja sinn í röð (síðan 2017) með nýja útgáfu af þriggja flokka stjórn, sem þýðir meiri málamiðlanir en ella, hvort sem fólki líkar betur eða verr. „You Can‘t Always Get What You Want,“ eins og The Rolling Stones hafa minnt okkur á í gegnum tíðina.

„Þunna súpan“ gæti orðið matarmikil en ný stjórn mun að sjálfsögðu reka sig á og lenda í mótbyr eins og allar ríkisstjórnir gera og við öll. Stór hluti af starfi ríkisstjórna er að bregðast við hinu óvænta, þær starfa ekki í tómarúmi. Áfram veginn.

Höfundur er stjórnmálafræðingur sem starfar við markaðsmál o.fl.




Skoðun

Sjá meira


×