Viðskipti innlent

Hrönn stýrir Kríu

Árni Sæberg skrifar
Hrönn Greipsdóttir er forstjóri Nýsköpunarsjóðsins Kríu.
Hrönn Greipsdóttir er forstjóri Nýsköpunarsjóðsins Kríu. Stjórnarráðið

Logi Einarsson, menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra, hefur skipað Hrönn Greipsdóttur í starf forstjóra Nýsköpunarsjóðsins Kríu.

Í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins segir að Nýsköpunarsjóðurinn Kría sé sjálfstæður sjóður í eigu ríkisins og hafi orðið til við samruna Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins og Kríu, sprota- og nýsköpunarsjóðs. Hlutverk sjóðsins sé að auka framboð fjármagns og fjármögnunarkosta fyrir sprota- og nýsköpunarfyrirtæki og auka viðnámsþrótt fjármögnunarumhverfisins. Sjóðurinn hafi jafnframt það hlutverk að hvetja, með fjárfestingum sínum, einkafjárfesta til þátttöku í fjármögnun nýsköpunar.

Tugir umsækjenda

Starf forstjóra Nýsköpunarsjóðsins Kríu hafi verið auglýst laust til umsóknar 14. nóvember 2024. Alls hafi 39 umsóknir borist um starfið en 15 umsækjendur hafi dregið umsóknir sínar til baka. Eftir ítarlegt matsferli hafi stjórn sjóðsins lagt til við ráðherra að Hrönn Greipsdóttir yrði ráðin í starf forstjóra.

Hrönn sé með Cand.Oecon gráðu í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands og MBA gráðu frá City University Business School í London. Hún sé auk þess með próf í verðbréfaviðskiptum frá Háskólanum í Reykjavík.Undanfarin tvö ár hafi Hrönn gegnt stöðu framkvæmdastjóra Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins þar sem hún hafi borið ábyrgð á rekstri og stjórnun sjóðsins ásamt fjármögnun og ýmsum umsýsluverkefnum.

Hefur setið í fjölda stjórna 

Áður hafi Hrönn starfað sem framkvæmdastjóri Eldeyjar fjárfestingarfélags í fimm ár, þar sem hún hafi verið ábyrg fyrir og leitt fjárfestingar og eignastýringu félagsins, sem hafi verið í vörslu hjá Íslandssjóðum.

Hrönn hafi í gegnum tíðina setið í fjölda stjórna, allt frá litlum og meðalstórum sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum til eftirlitsskyldra fjármálafyrirtækja. Hún hafi meðal annars setið í stjórn Verðbréfasjóðs Búnaðarbanka Íslands, Viðskiptaráðs Íslands, HF verðbréfa, auk fjölda ferðaþjónustufyrirtækja.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×