Sýni voru tekin í sex klefum á salernum fyrir bæði karla og konur á tveimur hæðum þinghússins kvöldið sem þingflokkarnir hittust til að fagna jólunum. Auk þingmanna eru starfsmönnum þingflokka, aðstoðarmönnum ráðherra og blaðamönnum boðið í slíkan gleðskap, að sögn finnska ríkisútvarpsins YLE.
Sérfræðingar á rannsóknarstofu fundu leifar af amfetamíni, MDMA og kókaíni í sýnunum. Þótt leifarnar væru agnarlitlar fundust þær aðeins á klósettum á þeirri hæð þinghússins þar sem þingflokkarnir fögnuðu.
Niðurstöðurnar eru ekki óyggjandi sönnun þess að veislugestir hafi neytt fíkniefna í þinghúsinu, aðeins að manneskja eða manneskjur sem notuðu salernin hafi komist í snertingu við fíkniefnin nýlega.
Ekki vinsælt að koma fyrir leitarhundum við innganga
Engu að síður segir Jussi Halla-aho, forseti þingsins, það dapurlegt og ömurlegt að vísbendingar hafi fundist um mögulega fíkniefnaneyslu þeirra sem starfa í þinghúsinu.
„Þetta sýnir að fíkniefnaneysla í þinghúsinu fer vaxandi,“ segir hann við YLE sem skildist að hann ætlaði að funda um aðgerðir til þess að taka á neyslu í þinginu.
Halla-aho segir þó ekki marga möguleika í stöðunni.
„Ég hugsa að þap nyti ekki mikils stuðnings að koma fyrir fíkniefnaleitarhundi við dyr þinghússins til þess að leita á öllum sem fara inn,“ segir þingforsetinn.
YLE getur þess að fíkniefnaneysla virðist einnig vandamál hjá nágrönnunum í Svíþjóð. Þannig hafi sænska blaðið Aftonbladet fundið leifar kókaíns á salerni þar sem fjórir þingflokkar höfðu aðstöðu í fyrra.