Þegar Donald Trump, verðandi forseti Bandaríkjanna var spurður hvort hann gæti útilokað að hann myndi grípa til efnahagslegra eða hernaðarlegra aðgerða til að taka yfir Grænland og Panamaskurðinn svaraði hann því neitandi. Hann þyrfti á Panama og Grænlandi að halda.
Skömmu eftir að hann lét þessi ummæli falla flaug sonur hans, Donald Trump yngri, til Grænlands ásamt fylgdarliði. Hann var spurður hvers vegna hann væri á Grænlandi.
„Við erum hér sem ferðamenn til að sjá landið. Þetta lítur ótrúlega út. Við höfum ætlað okkur að koma hingað í langan tíma.“ Þrátt fyrir að Trump yngri sagðist vera þarna til að skoða sig um hafa margir lesið eitthvað annað og meira út úr heimsókninni og tengt hana við ummæli Trumps eldri.
Í gær hitti Trump yngri grænlenska stuðningsmenn Trumps en hinn verðandi forseti útskýrði í símtali að hann þyrfti á Grænlandi að halda til að tryggja þjóðaröryggi.
„Við munum koma vel fram við ykkur, þið vitið það. Fariði vel með ykkur,“ heyrðist Trump eldri segja í símtalinu við grænlenska stuðningsmenn.
Svar Trumps um hernaðaðaraðgerðir hafa vakið hörð viðbrögð en utanríkisráðherra Frakklands sagðist ekki munu leyfa neina slíka tilburði. Forsætisráðherra Danmerkur segir mikilvægt að sýna Grænlendingum virðingu.
Eins og Mute Egede, formaður grænlensku landsstjórnarinnar, hefur þegar sagt þá er Grænland ekki til sölu.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, utanríkisráðherra, var á flugvellinum á leið til Þýskalands á fund varnamálaráðherra Atlantshafsbandalagsríkjanna þegar fréttastofa náði tali af henni.
„Mér var náttúrulega brugðið við að heyra svona yfirlýsingar frá verðandi forseta en á þessu stigi þá tel ég ekki rétt að tjá mig frekar um það sem hann var að segja öðruvísi en það að ég undirstrika orð Egede, forsætisráðherra Grænlands, um að Grænland er ekki til sölu og það er Grænlendinga sjálfra að ákveða um sína eigin framtíð.“
Norðurlöndin og Eystrasaltsríkin verði samstíga.
„Að sjálfsögðu erum við í sambandi út af þessu og höfum verið með ákveðin tengsl vegna þessara orða en ég tel ekki tímabært að tjá mig um þessi orð verðandi Bandaríkjaforseta en það er ljóst a það eru blikur á lofti í alþjóðamálum en við Íslendingar styðjum Grænlendinga.“