Snorri Steinn Guðjónsson, landsliðsþjálfari Íslands, greindi frá þessu í samtali við Vísi fyrir æfingu landsliðsins í Víkinni í morgun.
Aron og Elvar Örn Jónsson séu einu tveir leikmennirnir sem hafa verið að glíma við meiðsli. Elvar Örn er á réttri leið og búist við honum í fyrsta leik en ekki sömu sögu að segja af Aroni.
Fyrr í vikunni var greint frá því á Vísi að Aron væri ekki með á æfingum Íslands af þeim sökum að hann hafi farið of geyst af stað milli jóla og nýárs. Nú virðist sem þau meiðsli séu alvarlegri en talið var í fyrstu.
Aron er meiddur á kálfa og var hann ekki með á æfingu dagsins og ekki búist við því að hann geti spilað fyrr en Ísland hefur keppni í milliriðli.
Fyrsti leikur Íslands er við Grænhöfðaeyjar 16. janúar, liðið mætir því næst Kúbu tveimur dögum síðar og svo Slóveníu 20. janúar.
Keppni hefst í milliriðli 22. janúar og vonast til að Aron verði klár í slaginn þá. Allir leikir Íslands, í riðlinum og milliriðli, fara fram í Zagreb í Króatíu.