Innlent

Jón Gunnars­son kemur inn við brott­hvarf Bjarna

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Jón Gunnarsson getur tekið sæti á þingi, kjósi hann að gera það.
Jón Gunnarsson getur tekið sæti á þingi, kjósi hann að gera það. Vísir/Vilhelm

Jón Gunnarsson, fyrrverandi þingmaður og ráðherra Sjálfstæðisflokksins, mun geta tekið sæti á komandi þingi, nú þegar ljóst er að Bjarni Benediktsson mun ekki taka sæti.

Bjarni greindi frá ákvörðun sinni um að sækjast ekki eftir endurkjöri í embætti formanns Sjálfstæðisflokksins. Í sömu andrá greindi hann frá því að hann myndi ekki taka sæti á komandi þingi, heldur yfirgefa svið stjórnmálanna eftir 22 ára þingsetu.

Bjarni leiddi lista flokks síns í Suðvesturkjördæmi í alþingiskosningunum, en Sjálfstæðisflokkurinn náði fjórum mönnum inn. Í fimmta sæti listans var Jón Gunnarsson, sem fékk því það hlutskipti að verða varaþingmaður.

Nú þegar ljóst er að Bjarni ætli sér ekki að taka sæti á þingi getur Jón tekið fjórða og síðasta þingsæti Sjálfstæðismanna í Kraganum, kjósi hann það. Ekki náðist í Jón við vinnslu fréttarinnar, og því ekki ljóst hvort hann ætli sér að taka sætið.

Með þessu verður Árni Helgason, lögfræðingur frá Seltjarnarnesi og fyrrverandi hlaðvarpssmiður, fyrsti varaþingmaður flokksins í kjördæminu, í stað Jóns. Þá verður einnig sú breyting að Sunna Sigurðardóttir, deildarstjóri úr Garðabæ, fer úr níunda sætinu í það áttunda, og í hóp varaþingmanna.  


Tengdar fréttir

Bjarni gefur ekki kost á sér og afsalar sér þingsæti

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, ætlar ekki að gefa kost á sér í formannskjöri á komandi landsfundi flokksins. Hann ætlar ekki að taka sæti á þingi síðar í mánuðinum.

Hildur áfram þingflokksformaður

Hildur Sverrisdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, verður áfram þingflokksformaður flokksins þegar þing kemur saman. Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins tilkynnti um þetta á þingflokksfundi í dag. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×