HK blés til allsherjar fögnuðar í höfuðstöðvum sínum í Kórnum í gær þar sem að Glódís Perla, fyrirliði íslenska landsliðsins og Bayern Munchen, mikill HK-ingur og nýkjörin íþróttamaður ársins var heiðruð að viðstöddu margmenni.„Ótrúlega ljúft að koma hingað,“ segir Glódís í samtali við íþróttadeild. „Það hefur mikið breyst síðan að ég var í HK á sínum tíma. Félagið hefur vaxið. Bara ótrúlega gaman að koma hingað og sjá hversu mikið hefur gerst og hversu mikla þýðingu ég hef fyrir klúbbinn.“
Ungviðinu á svæðinu gafst svo tækifæri til þess að hitta fótboltastjörnuna og fá hjá henni eiginhandaráritun, þeirra á meðal voru þrjár fótboltastelpur úr HK, þær Kamilla, Elísa og Erla sem ætla sér allar að verða fótboltakonur eins og Glódís en rætt er við þær í myndskeiðinu hér fyrir ofan.
Glódís heldur brátt af landi brott til Þýskalands þar sem baráttan með Bayern Munchen tekur við en ekki hefur verið um neitt venjulegt frí yfir hátíðirnar að ræða hjá henni hér heima. Hún var sæmd heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu á nýársdag og eins og fyrr sagði valin íþróttamaður ársins. Veran hér á landi hefur snert við henni og hún þarf tíma til þess að melta allt það sem hefur drifið á hennar daga hér á landi yfir hátíðirnar.
„Ég held ég verði að gefa mér smá tíma í það þegar að ég held aftur út. Að setjast niður og virkilega hugsa um þetta, leyfa mér að njóta alls þess sem hefur gerst núna. Þetta eru náttúrulega bara algjör forréttindi, að vera í þessari stöðu sem ég er í. Maður finnur fyrir svo mikilli hlýju og ást frá samfélaginu, frá Íslandi, frá HK. Þetta er búið að vera ótrúlega gaman. Að vera heima núna.“