Handbolti

Haf­steinn fer á HM

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hafsteinn Óli Berg Ramos Rocha hefur skorað 36 mörk fyrir Gróttu í Olís-deildinni í vetur.
Hafsteinn Óli Berg Ramos Rocha hefur skorað 36 mörk fyrir Gróttu í Olís-deildinni í vetur. vísir/diego

Ljóst er að Hafsteinn Óli Berg Ramos Rocha, leikmaður Gróttu, fer með landsliði Grænhöfðaeyja á heimsmeistaramótið í handbolta í næsta mánuði. Grænhöfðaeyjar eru með Íslandi í riðli.

Hafsteinn er í tuttugu manna HM-hópi Grænhöfðaeyja sem hefur verið valinn. Sextán leikmenn mega vera á skýrslu í hverjum leik.

Hafsteinn lék sína fyrstu landsleiki fyrir Grænhöfðaeyjar í síðasta mánuði. Liðið tók þá þátt á móti í Kúveit og mætti heimamönnum, Barein og Túnis.

Faðir Hafsteins er frá Grænhöfðaeyjum en fyrir um ári kom það til tals að hann myndi spila með landsliði þjóðarinnar.

„Fyrir síðustu jól heyrðu þeir í pabba mínum. Við töluðum svo saman í nokkra mánuði og síðan í sumar fór ég til Grænhöfðaeyja og fékk ríkisborgararéttinn þar. Ég var þar í tíu daga að græja pappíra og allt það. Eftir það kom ég heim og heyrði ég í þjálfaranum. Síðan var maður mættur þarna á mót í Kúveit í byrjun nóvember,“ sagði Hafsteinn í samtali við Vísi á dögunum.

Sem fyrr sagði eru Grænhöfðaeyjar með Íslandi í riðli á HM sem hefst 14. janúar. Tveimur dögum síðar mætast liðin. Hafsteinn gæti þar mætt strákum sem hann spilaði með í yngri landsliðum Íslands.

Auk Grænhöfðaeyja og Íslands eru Slóvenía og Kúba í G-riðli heimsmeistaramótsins. Hann verður leikinn í Zagreb í Króatíu. Þrjú efstu liðin komast áfram í milliriðil.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×