„Um helmingur sölunnar á sér stað á gamlársdag,“ segir Jón Þór Víglundsson upplýsingafulltrúi Landsbjargar en hann ræddi flugeldasöluna, fjölda útkalla á árinu, fjáröflun Landsbjargar og stöðuna á björgunarsveitunum um jólin í Bítinu á Bylgjunni í morgun.
„Flugeldasalan er og hefur verið okkar mikilvægasta fjáröflun í nær 60 ár,“ segir Jón Þór og að það líti ekki út fyrir að það verði nokkur breyting þar á.
Sigurður Þ. Ragnarsson, Siggi Stormur, spáði i morgun góðu flugeldaveðri um áramótin. Það verði kalt, mikil stilla og því gæti fylgt nokkuð svifryk.
Hann segir flugeldana hluta af hefð Íslendinga og stemningunni. Jón Þór segir ekki verra ef Íslendingar myndu dreifa kaupunum og koma fyrr en á gamlársdag en spáin sé góð fyrir gamlársdag og því séu þeir ekki stressaðir.

Jón Þór segir verðið áþekkt og í fyrra. Það sé örlítil hækkun en hún sé minni en hann hefði búist við miðað við verðbólgu.