Eimskip segir í tilkynningu sem fyrirtækið sendi frá sér áðan að málinu hafi verið vísað frá héraðsdómi í dag. Uppkvaðning úrskurðar í málinu var á dagskrá Héraðsdóms Reykjavíkur klukkan ellefu.
Samskip stefndu Eimskipi og Vilhelm Má Þorsteinssyni, forstjóra Eimskips, og krafðist þess að bótaskylda síðarnefnda skipafélagsins yrði viðurkennd vegna meintra ólögmætra og saknæmra athafna í tengslum við sátt Eimskips við Samkeppniseftirlitið árið 2021.
Ekki var kveðið á um fjárhæðina en lögmaður Samskipa sagði í apríl að tjónið gætið hlaupið á milljörðum króna.
Málið má rekja til þess að Eimskip féllst á að greiða einn og hálfan milljarð króna í sekt vegna ólögmæts samráðs við Samskip samkvæmt sáttinni. Samskip gerðu ekki sátt í málinu og voru sektuð um 4,2 milljarða króna í fyrra.
Í stefnunni var vísað til yfirlýsinga í sátt Eimskips og Samkeppniseftirlitsins um samráðið og tjóns sem Samskip hefðu orðið fyrir vegna þess að Eimskip skuldbatt sig til þess að hætta viðskiptalegu samstarfi við samkeppnisaðilann.
Hæstiréttur samþykkti í dag að veita Samskipum leyfi til að áfrýja máli þeirra gegn Samkeppniseftirlitinu. Landsréttur hafði komist að þeirri niðurstöðu að Samskip gætu ekki skotið sátt Eimskips til áfrýjunarnefndar samkeppnismála.