Í bókunum tveimur dregur Kristín upp seiðmagnaða mynd af lífi Oddnýjar Þorleifs- og Þuríðardóttur, langömmu sinnar, á ofanverðri 19. öld í Biskupstungum. „Tíminn sem Oddný fæddist á og ólst upp á vekur mér forvitni,“ segir Kristín. „Hefði ég ekki skrifað um hana hefði ég alveg örugglega skrifað sögu annarrar persónu frá þessum tíma og geri það reyndar. Þetta er lokkandi tímabil sem er ekki jafn langt í burtu og mætti halda - maður smeygir sér bara í gegnum nokkur leiktjöld! Og vinkona mín segir að tíminn sé ekki til.“
Kynngimögnuð kvennasaga
Móðurást: Draumaþing segir frá Oddnýju sem stendur á mörkum barns og konu. Hún er ófús að sleppa tökunum á bernskunni, því hún óttast þann veruleika sem bíður hennar sem fullorðinnar konu. Allt í kringum sig sér hún aðeins stritandi og ófrjálsar konur. En á fimmtánda sumri er henni boðið í Jónsmessugleði þar sem hún verður fyrir opinberun: henni opnast nýr heimur og töfrandi, kynngimagnaður kvennaheimur sem alla jafna er hulinn í samfélagi þar sem karlar hafa töglin og hagldirnar.
Hún segir hafa verið skemmtilegt að kafa í sögu þessara tíma. „Það var spennandi að lifa mig inn í heim sem líka setur mér skorður, beygja mig undir sagnfræðilegan sannleika, setja mér mörk. Það krefst öðruvísi nákvæmni og sérstaks jarðsambands. Það er til dæmis ekki sjálfsagt að kveikja og slökkva ljósin.“

Kristín hefur einstakt vald á tungumálinu og texti hennar er ljóðrænn og skrifaður af mikilli næmni. Töfrar skáldskaparins eru nýttir til hins ýtrasta í sögunni; frásögnin stendur í senn föstum fótum í fortíðinni og hefur á sér tímalausan blæ. Kristín býður lesendum að stíga inn í heim sem er bæði nákominn og fjarlægur og fá einstæða innsýn í líf og drauma kvenna sem mótuðu samfélagið í skugga valdsins.
Leikritaskrifin mótuðu hana
Á ferli sínum hefur Kristín skrifað ljóð, skáldsögur, smásögur og leikrit, auk þess að vinna með myndlist, myndbönd og skúlptúra. „Ég byrjaði að skrifa leikrit og það hefur mótað mig: að skrifa senur, skrifa samtöl. Einhvern tímann skrifaði ég bók þar sem ég var að sameina leikritun og prósa. Prósinn hefur orðið ofan á en ég held að leifar leikritaskrifanna séu frekar ljósar og vona það líka. Það tekur tíma að lesa, tónlist og myndlist berast miklu hraðar til skynfæranna og tilfinninganna. Best er þegar ég skrifa þannig að myndin, orðin og takturinn sameinast.“
Verk Kristínar hafa verið þýdd á sænsku, frönsku og finnsku, og ljóð hennar birt í erlendum safnritum.

Eru verðlaun ekki eins og sælgæti?
Kristín fæddist í Reykjavík árið 1962 og lauk stúdentsprófi frá Flensborg í Hafnarfirði árið 1981. Hún lagði stund á nám í íslensku, bókmenntafræði og spænsku við Háskóla Íslands og hefur búið bæði í Kaupmannahöfn og Barcelona.
Verk hennar hafa hlotið fjölda viðurkenninga, þar á meðal Fjöruverðlaunin, Maístjörnuna og Grímuverðlaunin. Skáldsagan Elskan mín ég dey var tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs árið 1999 og ljóðabókin Kóngulær í sýningargluggum hlaut Maístjörnuna árið 2018.
Eins og fyrr segir var Móðurást: Draumþing nýlega tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Hvað skyldi slík viðurkenning þýðar fyrir Kristínu? „Eru verðlaun ekki svona eins og sælgæti, hrekkjavaka, partý? Ég vil ekki flokka bækur í góðar bækur og vondar, mér finnst það máttlaus einföldun. Ég held að verðlaun séu skemmtiatriði. Bækur og lestur falla aldrei úr gildi.“