Marine Le Pen, leiðtogi Þjóðfylkingarinnar, segir vantrauststillöguna einu leiðina til að vernda Frakka frá hættulegum og ósanngjörnum fjárlögum, sem Barnier þvingaði í gegn í gær með því að grípa til undanþáguákvæðis í stjórnarskránni.
Hann hafði áður gefið nokkuð eftir og meðal annars samþykkt að koma til móts við kröfur Þjóðfylkingarinnar og annarra um að draga ekki úr greiðsluþátttöku ríkisins í lyfjakostnaði en það dugði ekki til.
Le Pen sagði í morgun að fjárlögin væru ekki aðeins þannig að þau myndu koma niður á almennum borgurum, heldur verða til þess að auka á halla ríkissjóðs sem hefði vaxið gríðarlega í stjórnartíð Emmanuel Macron Frakklandsforseta.
Þjóðfylkingin, sem er stærsti flokkurinn á þinginu, verður þó ekki einn í því að styðja vantraust gegn Barnier heldur hyggst bandalag vinstriflokka, sem meðal annars nær til Sósíalista og Græningja, einnig greiða atkvæði með vantrausti.
Vantrauststillagan verður tekin fyrir á morgun klukkan 16 og atkvæði líklega greidd um kvöldið.
Ef Barnier tapar er gert ráð fyrir að hann muni engu að síður sitja áfram sem forsætisráðherra á meðan Macron reynir að finna annan í hans stað. Forsetinn gæti, tæknilega séð, sett Barnier aftur í embætti en ólíklegt verður að teljast að til þess komi.
Víst þykir að vantraust mun valda titringi á mörkuðum og skapa óvissu í efnahagsmálum landsins.