Erlent

„Pavarotti á ís“ vekur reiði ekkju stórsöngvarans

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Ítalskir miðlar hafa kallað uppákomuna „Pavarotti á ís“.
Ítalskir miðlar hafa kallað uppákomuna „Pavarotti á ís“. Getty/Gianni Ferrari

Borgarstjóri Pesaro á Ítalíu hefur beðið fjölskyldu stórsöngvarans Luciano Pavarotti afsökunar, eftir að skautasvell var byggt í kringum styttu af tenórnum.

Styttan stendur á torgi þar sem skautasvelli hefur nú verið reist í tilefni jólanna. Svellið nær styttunni upp að hnjám og verður að segjast eins og er að sýnin er dálítið hjákátleg.

Borgarstjórinn, Andrea Biancani, gerði svo illt verra þegar hann vakti athygli á svellinu á samfélagsmiðlum og hvatti skautara til að gefa Pavarotti fimmu.

Nicoletta Mantovani, ekkja Pavarotti, lýsti í kjölfarið reiði með ákvörðun bæjaryfirvalda, sem hún sagði hafa ákveðið að gera lítið úr eiginmanni sínum heitnum.

„Ég gerði ekki ráð fyrir að bærinn myndi leyfa þessa meðferð á minningu og ímynd mannsins sem hóf Ítalíu til virðingar út um allan heim,“ sagði Mantovani í samtali við Il Resto del Carlino.

Styttan af Pavarotti var afhjúpuð í apríl í fyrra, að Mantovani og dóttur þeirra hjóna viðstöddum. Fjölskyldan átti villu í bænum og varði nokkrum tíma þar.

Að sögn Biancani verður skautasvellið ekki tekið niður úr þessu en hann hefur heitið því að mistökin muni ekki endurtaka sig.

Pavarotti lést árið 2007 en hann hafði verið greindur með krabbamein í brisi. Hann var 71 árs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×