Þar kemur jafnframt fram að einnig séu í undirbúningi útboð í Gufudalssveit vegna þverunar Djúpafjarðar og Gufufjarðar. Standi vonir til að það verði tilbúið til útboðs snemma á nýju ári.
Í frétt Vegagerðarinnar er hins vegar engin skýring gefin á því hversvegna þessi verkefni voru söltuð á þessu ári. Þau urðu bæði fórnarlömb útboðsstopps allra stærri verka í vegagerð í landinu sem núna hefur staðið yfir í nærri fimmtán mánuði.
Einar K. Guðfinnsson, fyrrverandi ráðherra og alþingismaður Vestfjarða og Norðvesturkjördæmis, krafðist þess í síðustu viku að samgönguyfirvöld skýrðu það undanbragðalaust fyrir komandi alþingiskosningar hversvegna vegaframkvæmdir í Gufudalssveit og á Dynjandisheiði stöðvuðust og hvort fjármunir, sem Alþingi hafði ráðstafað í verkin, hafi verið fluttir í Hornafjarðarfljót.
Í viðtali á Bylgjunni síðastliðið sumar, um hversvegna stjórnarmeirihlutann treysti sér ekki til að afgreiða samgönguáætlun, gaf Jón Gunnarsson, alþingismaður og fyrrverandi samgönguráðherra, þá skýringu að Vegagerðin hafi verið komin í mjög annarlega stöðu, með fimm til sex milljarða króna útgjöld fram yfir heimildir á þessu ári. Meðal annars vegna þess að sérstök fjármögnun Hornafjarðarfljóts hafi ekki gengið upp.
Jón Gunnarsson tók svo þetta sem dæmi í facebook-færslu í fyrradag þegar hann sakaði Sigurð Inga Jóhannsson, innviðaráðherra og núverandi fjármálaráðherra, um að hafa sólundað fé án heimilda Alþingis.
„Við þekkjum vel dæmin um hvernig núverandi fjármálaráðherra hunsaði vilja þingsins gagnvart samgönguáætlun á 7 ára ferli sínum sem ráðherra samgöngumála. Þar var sólundað með fé og forgangsraðað verkefnum án þess að sækja heimildir fyrir því til Alþingis. Það er skýringin á miklum seinkunum á öðrum forgangsverkefnum víða um land,“ sagði Jón Gunnarsson.

Í frétt Vegagerðarinnar í dag er haft eftir Bergþóru Þorkelsdóttur vegamálastjóra að það sé mjög ánægjulegt að geta haldið áfram með þessi mikilvægu verkefni, enda sé um að ræða gríðarlegt hagsmunamál fyrir Vestfirðinga.
„Þær vegabætur sem þegar hefur verið ráðist í og þær sem framundan eru á Vestfjörðum, skipta sköpun fyrir þróun lífsskilyrða í þessum landsfjórðungi,“ segir Bergþóra.
Fram kemur að fyrirhugað sé að byggja þennan hluta Vestfjarðarvegar á Dynjandisheiði að mestu í nýju vegstæði en að hluta í núverandi vegstæði, auk þess sem gert sé ráð fyrir keðjuplani og áningarstað. Verkinu eigi að ljúka í lok september 2026.