Uppgjörið: Höttur - KR 85-88 | Lipur sókn skilaði KR sigri á Hetti Gunnar Gunnarsson skrifar 29. nóvember 2024 20:39 KR-ingar fögnuðu sigri í kvöld. vísir/Diego Nýliðar KR unnu sinn fjórða leik í úrvalsdeild karla í vetur þegar þeir lögðu Hött 85-88 á Egilsstöðum í kvöld. KR spilaði lipran sóknarleik gegn Hattarliði sem hefur átt betri daga. KR-ingar fóru betur af stað og voru 19-25 yfir eftir fyrsta leikhluta og 35-42 í hálfleik. Þeir gáfu strax tóninn fyrir leik sinn, boltinn gekk hratt í sókninni og eftir 2-3 sendingar voru þeir yfir leitt komnir í góð skotfæri. Munurinn varð líka strax samanburðarhæfur. Bæði lið áttu 21 skot af gólfinu í fyrsta leikhluta, KR setti 10 niður en Höttur 8. Þar af hitti KR úr 3/8 þriggja stiga skotum en Höttur úr 1/7. Höttur átti góðan kafla um miðjan þriðja leikhluta og komst þá yfir 50-49 eftir 8-2 kafla. Höttur leiddi næstu mínúturnar, þar til Dani Koljanin setti niður þriggja stiga skot. Höttur fór þá í baklás og fimm stig Þóris Guðmundar Þorbjarnarsonar í röð tryggðu KR 60-65 forskot eftir þriðja leikhluta. KR-ingar héldu áfram og bættu við fjórum stigum strax í byrjun fjórða leikhluta. Höttur tók leikhlé til að reyna að bregðast við. Það skilaði því að liðið kom muninum niður í 70-73, eftir sérlega glæsilega körfu nýja Bandaríkjamannsins Justin Roberts, sem kom boltanum ofan í með bakið í körfuna. En áður en hann skoraði hafði Jakob Örn Sigurðsson, þjálfari KR, beðið um leikhlé. Eftir leikhléið skoraði KR fjögur stig í röð. Þar með var brekkan sem Höttur þurfti að klífa orðin brött. Liðið reyndi að hleypa leiknum upp með að brjóta í lokin en forskot KR var of gott. Sigurinn var því öruggari en lokatölurnar gefa til kynna. Hvað gekk vel? Leikskipulag KR virtist ganga upp í gegnum leikinn og ekki þurfa að gera miklar breytingar á því. Í hvert skipti sem Höttur komst á einhvert skrið átti KR svar, oftar en ekki með þriggja stiga körfum. Hverjir stóðu upp úr? Þórir Guðmundur Þorbjarnarson átti flottan dag í liði KR. Hann hitti 4/6 úr þriggja stiga skotum og þau voru oft vel tímasett. Hann skoraði alls 19 stig og tók 11 fráköst. Linards Jaunzems var stigahæstur hjá KR með 25 stig, hann tók 10 fráköst, þar af 6 sóknarfráköst. Hann hitti úr 10/12 skotum sínum utan af velli. Hjá Hetti sótti nýi maðurinn Roberts í sig veðrið þegar á leið leikinn og endaði með 25 stig. Þar er kvikur leikmaður á ferð með ágæt skot. Nemanja Knezevic barðist eins og ljón undir körfunni, reif til sín 19 fráköst og skoraði 15 stig. Hvað gekk illa? Aðrir leikmenn Hattar en Roberts og Knezevic voru lengst af í kvöld langt frá sínu besta. Höttur ákvað að fá til sín tvo nýja leikmenn í landsleikjahléinu, auk Roberts kom Frakkinn Gedeon Dimoke. Sérstaklega hann á eftir að koma sér betur í takt við samherja sína. Þá hafa Hattarmenn oft hitt betur úr þriggja stiga skotum en í kvöld. Hvað þýða úrslitin? Liðin voru fyrir leikinn í kvöld jöfn með þrjá sigra úr sjö leikjum. KR lyftir sér því upp fyrir Hött. Pakkinn frá 2. – 10. sæti deildarinnar er þéttur svo úrslitin hafa engin afgerandi áhrif á framtíð liðanna. Viðar Örn: Við náðum ekki saman í kvöld Viðar Örn Hafsteinsson þjálfari Hattar, sagði Hött hafa átt góða kafla en ekki náð fyllilega nógu vel saman í 85-88 tapi fyrir KR í úrvalsdeild karla í körfuknattleik í kvöld. Tveir nýir leikmenn spiluðu með liðinu. „Það var eins og hljóð og mynd færu ekki saman hjá okkur á köflum. Góðu kaflarnir voru mjög góðir en þeir lakari of slakir. Við gerðum smá breytingar á hópnum hjá okkur, við erum kannski ekki orðnir smurðir en það var margt til að byggja á hérna.“ Nýju leikmennirnir eru þeir Justin Roberts, bandarískur bakvörður sem var stigahæstur Hattar með 25 stig í kvöld. Hann kemur í staðinn fyrir Corvousier McCauley sem var látinn fara í byrjun mánaðarins. Eins kom franski framherjinn Gedeon Dimoke sem ætlað er að fylla skarð Matej Karlovic sem glímt hefur við bakmeiðsli undanfarin ár. Dimoke var viljugur í sókninni en náði ekki takti í vörn. „Þeir áttu enga toppleiki, það sást að þeir hafa ekki spilað síðustu 2-3 mánuði. En við verðum fínir þegar þeir verða komnir í takt við okkur,“ sagði Viðar aðspurður um nýju þá tvo. Nemanja Knezevic og Roberts drógu vagninn hjá Hetti en aðrir leikmenn voru nokkuð frá sínu besta. „Á köflum refsuðum við þeim vel inni í teig, en gerðum það ekki nógu vel, við vorum með of marga tapaða bolta og þvingaðan sóknarleik. Það tengdist því að við vorum ekki í takti. Við þurfum að vinna í því.“ Leikið er þétt fram að jólum og KR kemur aftur austur eftir rúma viku í bikarleik. Fyrst á Höttur Þór Þorlákshöfn í deildinni. „Það eru allir leikir mikilvægir. Við spiluðum ekki nógu vel í dag, nema á köflum og verðum að spila betur. Það er spáð vitlausu veðri þannig KR verður örugglega hér fram til næsta sunnudags.“ Jakob: Við unnum þetta með liðsheildinni Jakob Örn Sigurðsson, þjálfari KR, var ánægður með hvernig hans lið lærði af því sem miður fór í síðasta leik sem tapaðist gegn Val og sýndi það í 85-88 sigri á Hetti í kvöld. KR var yfir nær allan leikinn og svo virtist sem leikplan liðsins gengi vel eftir. „Leikplanið gekk tiltölulega vel og breyttum ekki miklu í gegnum leik. Það sem við vorum að gera virkaði vel og ég er sáttur við hvernig við framkvæmdum það. Þetta var ekki flókið. Við töluðum mikið um að vera lið, að það kæmi slæmur kafli í leikinn hjá okkur, sem gerðist en þegar hann kæmi myndum við ekki brotna og verða einstaklingar og verða lið og komast í gegnum það. Mér fannst við gera það en auðvitað voru leikmenn sem settu stór skot á mikilvægum augnablik sem stoppuðu og hægðu á Hetti. Í hvert skipti sem Höttur komst á stig stigum við upp. Ég var líka ánægður með hvernig við gerðum það, leystum leikkerfin sem við lögðum upp með í stað þess að puða hver í sínu horni. Heilt yfir vorum við sem ein heild á vellinum og hvöttum hvern annan, fögnuðum saman þegar einhver gerði eitthvað vel. Þetta var stór þáttur fyrir mig og mitt lið og mér fannst við klikka á gegn Val. Varnarlega vorum við mjög traustir. Við vorum tilbúnir í líkamlega baráttu. Við skiptum mikið og reyndum að ýta Nemanja (Knezevic) út úr teignum þegar þeir reyndu að spila á hann.“ Stór skot á mikilvægum augnablikum Þórir Guðmundur Þorbjarnarson átti sinn skerf af þessum stóru skotum, hann skoraði alls 19 stig þar af 12 úr þriggja stiga skotum. Linards Jaunzems var líka heitur, setti niður 10/12 skotum af gólfinu og varð stigahæstur gestanna með 25 stig. Þeir voru líka báðir með yfir 10 fráköst. „Þeir settu báðir stór skot, síðan setti Nimrod (Hilliard) stór skot þegar á þurfi að halda auk þess sem við náðum mikilvægum stoppum í vörninni og fráköstum. Höttur er líkamlega sterkt lið og við náðum að halda fráköstunum jöfnum.“ Aðventan verður strembin hjá körfuknattleiksmönnum, KR á fimm leiki á næstu þremur vikum. „Við eigum fjóra deildarleiki auk þess sem við komum aftur hingað eftir rúma viku í bikarleik. Þetta er mikilvægur kafli á tímabilinu þar sem við ætlum að reyna að halda einbeitingu og gera vel.“ Bónus-deild karla Höttur KR
Nýliðar KR unnu sinn fjórða leik í úrvalsdeild karla í vetur þegar þeir lögðu Hött 85-88 á Egilsstöðum í kvöld. KR spilaði lipran sóknarleik gegn Hattarliði sem hefur átt betri daga. KR-ingar fóru betur af stað og voru 19-25 yfir eftir fyrsta leikhluta og 35-42 í hálfleik. Þeir gáfu strax tóninn fyrir leik sinn, boltinn gekk hratt í sókninni og eftir 2-3 sendingar voru þeir yfir leitt komnir í góð skotfæri. Munurinn varð líka strax samanburðarhæfur. Bæði lið áttu 21 skot af gólfinu í fyrsta leikhluta, KR setti 10 niður en Höttur 8. Þar af hitti KR úr 3/8 þriggja stiga skotum en Höttur úr 1/7. Höttur átti góðan kafla um miðjan þriðja leikhluta og komst þá yfir 50-49 eftir 8-2 kafla. Höttur leiddi næstu mínúturnar, þar til Dani Koljanin setti niður þriggja stiga skot. Höttur fór þá í baklás og fimm stig Þóris Guðmundar Þorbjarnarsonar í röð tryggðu KR 60-65 forskot eftir þriðja leikhluta. KR-ingar héldu áfram og bættu við fjórum stigum strax í byrjun fjórða leikhluta. Höttur tók leikhlé til að reyna að bregðast við. Það skilaði því að liðið kom muninum niður í 70-73, eftir sérlega glæsilega körfu nýja Bandaríkjamannsins Justin Roberts, sem kom boltanum ofan í með bakið í körfuna. En áður en hann skoraði hafði Jakob Örn Sigurðsson, þjálfari KR, beðið um leikhlé. Eftir leikhléið skoraði KR fjögur stig í röð. Þar með var brekkan sem Höttur þurfti að klífa orðin brött. Liðið reyndi að hleypa leiknum upp með að brjóta í lokin en forskot KR var of gott. Sigurinn var því öruggari en lokatölurnar gefa til kynna. Hvað gekk vel? Leikskipulag KR virtist ganga upp í gegnum leikinn og ekki þurfa að gera miklar breytingar á því. Í hvert skipti sem Höttur komst á einhvert skrið átti KR svar, oftar en ekki með þriggja stiga körfum. Hverjir stóðu upp úr? Þórir Guðmundur Þorbjarnarson átti flottan dag í liði KR. Hann hitti 4/6 úr þriggja stiga skotum og þau voru oft vel tímasett. Hann skoraði alls 19 stig og tók 11 fráköst. Linards Jaunzems var stigahæstur hjá KR með 25 stig, hann tók 10 fráköst, þar af 6 sóknarfráköst. Hann hitti úr 10/12 skotum sínum utan af velli. Hjá Hetti sótti nýi maðurinn Roberts í sig veðrið þegar á leið leikinn og endaði með 25 stig. Þar er kvikur leikmaður á ferð með ágæt skot. Nemanja Knezevic barðist eins og ljón undir körfunni, reif til sín 19 fráköst og skoraði 15 stig. Hvað gekk illa? Aðrir leikmenn Hattar en Roberts og Knezevic voru lengst af í kvöld langt frá sínu besta. Höttur ákvað að fá til sín tvo nýja leikmenn í landsleikjahléinu, auk Roberts kom Frakkinn Gedeon Dimoke. Sérstaklega hann á eftir að koma sér betur í takt við samherja sína. Þá hafa Hattarmenn oft hitt betur úr þriggja stiga skotum en í kvöld. Hvað þýða úrslitin? Liðin voru fyrir leikinn í kvöld jöfn með þrjá sigra úr sjö leikjum. KR lyftir sér því upp fyrir Hött. Pakkinn frá 2. – 10. sæti deildarinnar er þéttur svo úrslitin hafa engin afgerandi áhrif á framtíð liðanna. Viðar Örn: Við náðum ekki saman í kvöld Viðar Örn Hafsteinsson þjálfari Hattar, sagði Hött hafa átt góða kafla en ekki náð fyllilega nógu vel saman í 85-88 tapi fyrir KR í úrvalsdeild karla í körfuknattleik í kvöld. Tveir nýir leikmenn spiluðu með liðinu. „Það var eins og hljóð og mynd færu ekki saman hjá okkur á köflum. Góðu kaflarnir voru mjög góðir en þeir lakari of slakir. Við gerðum smá breytingar á hópnum hjá okkur, við erum kannski ekki orðnir smurðir en það var margt til að byggja á hérna.“ Nýju leikmennirnir eru þeir Justin Roberts, bandarískur bakvörður sem var stigahæstur Hattar með 25 stig í kvöld. Hann kemur í staðinn fyrir Corvousier McCauley sem var látinn fara í byrjun mánaðarins. Eins kom franski framherjinn Gedeon Dimoke sem ætlað er að fylla skarð Matej Karlovic sem glímt hefur við bakmeiðsli undanfarin ár. Dimoke var viljugur í sókninni en náði ekki takti í vörn. „Þeir áttu enga toppleiki, það sást að þeir hafa ekki spilað síðustu 2-3 mánuði. En við verðum fínir þegar þeir verða komnir í takt við okkur,“ sagði Viðar aðspurður um nýju þá tvo. Nemanja Knezevic og Roberts drógu vagninn hjá Hetti en aðrir leikmenn voru nokkuð frá sínu besta. „Á köflum refsuðum við þeim vel inni í teig, en gerðum það ekki nógu vel, við vorum með of marga tapaða bolta og þvingaðan sóknarleik. Það tengdist því að við vorum ekki í takti. Við þurfum að vinna í því.“ Leikið er þétt fram að jólum og KR kemur aftur austur eftir rúma viku í bikarleik. Fyrst á Höttur Þór Þorlákshöfn í deildinni. „Það eru allir leikir mikilvægir. Við spiluðum ekki nógu vel í dag, nema á köflum og verðum að spila betur. Það er spáð vitlausu veðri þannig KR verður örugglega hér fram til næsta sunnudags.“ Jakob: Við unnum þetta með liðsheildinni Jakob Örn Sigurðsson, þjálfari KR, var ánægður með hvernig hans lið lærði af því sem miður fór í síðasta leik sem tapaðist gegn Val og sýndi það í 85-88 sigri á Hetti í kvöld. KR var yfir nær allan leikinn og svo virtist sem leikplan liðsins gengi vel eftir. „Leikplanið gekk tiltölulega vel og breyttum ekki miklu í gegnum leik. Það sem við vorum að gera virkaði vel og ég er sáttur við hvernig við framkvæmdum það. Þetta var ekki flókið. Við töluðum mikið um að vera lið, að það kæmi slæmur kafli í leikinn hjá okkur, sem gerðist en þegar hann kæmi myndum við ekki brotna og verða einstaklingar og verða lið og komast í gegnum það. Mér fannst við gera það en auðvitað voru leikmenn sem settu stór skot á mikilvægum augnablik sem stoppuðu og hægðu á Hetti. Í hvert skipti sem Höttur komst á stig stigum við upp. Ég var líka ánægður með hvernig við gerðum það, leystum leikkerfin sem við lögðum upp með í stað þess að puða hver í sínu horni. Heilt yfir vorum við sem ein heild á vellinum og hvöttum hvern annan, fögnuðum saman þegar einhver gerði eitthvað vel. Þetta var stór þáttur fyrir mig og mitt lið og mér fannst við klikka á gegn Val. Varnarlega vorum við mjög traustir. Við vorum tilbúnir í líkamlega baráttu. Við skiptum mikið og reyndum að ýta Nemanja (Knezevic) út úr teignum þegar þeir reyndu að spila á hann.“ Stór skot á mikilvægum augnablikum Þórir Guðmundur Þorbjarnarson átti sinn skerf af þessum stóru skotum, hann skoraði alls 19 stig þar af 12 úr þriggja stiga skotum. Linards Jaunzems var líka heitur, setti niður 10/12 skotum af gólfinu og varð stigahæstur gestanna með 25 stig. Þeir voru líka báðir með yfir 10 fráköst. „Þeir settu báðir stór skot, síðan setti Nimrod (Hilliard) stór skot þegar á þurfi að halda auk þess sem við náðum mikilvægum stoppum í vörninni og fráköstum. Höttur er líkamlega sterkt lið og við náðum að halda fráköstunum jöfnum.“ Aðventan verður strembin hjá körfuknattleiksmönnum, KR á fimm leiki á næstu þremur vikum. „Við eigum fjóra deildarleiki auk þess sem við komum aftur hingað eftir rúma viku í bikarleik. Þetta er mikilvægur kafli á tímabilinu þar sem við ætlum að reyna að halda einbeitingu og gera vel.“
Uppgjörið: KR - Grindavík 120-112 | KR fór með sigur úr framlengingu gegn fáliðuðum Grindvíkingum