„Eina sem við vitum er bara það sem við sáum á öryggismyndavélum. Það kemur einstaklingur inn, klappar honum, tekur hann og labbar í burtu,“ segir Sigurborg Þóra Sigurðardóttir, verslunarstjóri hjá A4 í Skeifunni. Aðspurð telur hún líklegt að viðkomandi hafi verið þar á ferðinni sérstaklega til að nálgast köttinn en ekki til að versla.
„Væntanlega sérstaklega til að nálgast köttinn vegna þess að hann kemur bara beint inn, að kettinum og út. Þetta er innan við ein mínúta,“ útskýrir Sigurborg. „Ég lét eigandann vita að við værum með myndskeið þannig að hún gæti haft samband við lögreglu upp á að lögreglan gæti þá komið og séð myndskeiðið hjá okkur.“
Diego á sitt eigið bæli í versluninni og er sárt saknað að sögn Sigurborgar en alla jafna leggi hann leið sína í verslunina nær daglega. Hún hvetur þann sem kann að hafa Diego að skila honum til síns heima.