„Vélinni var flogið í prufuflugi í Hamborg í dag og við hlökkum til að taka á móti henni á Íslandi innan skamms. Koma vélarinnar markar upphaf nýs tímabils í sögu Icelandair,“ segir á facebook-síðu félagsins í kvöld.

Stefnt er að því að flugvélin verði afhent Icelandair mánudaginn 2. desember næstkomandi við athöfn í Hamborg. Henni verður síðan flogið til Íslands daginn eftir og áformað að hún lendi á Keflavíkurflugvelli um miðjan dag þriðjudaginn 3. desember.

Airbus-þotan verður á þýsku skrásetningarnúmeri, D-AZXZ, meðan flugprófanir standa yfir. Þegar forráðamenn Icelandair taka við henni fær hún íslensku skrásetninguna TF-IAA. 187 farþegasæti verða um borð, álíka og í Boeing 757 200-þotum Icelandair.

Icelandair á von á fjórum Airbus-þotum í flotann fyrir næsta sumar. Félagið leigir þessar þotur þar til það fær nýjustu og langdrægustu tegundina af A321-línunni, XLR-gerðina, eftir fimm ár.

Þjálfun starfsfólks og áhafna, þar á meðal flugvirkja, flugfreyja og flugmanna, hefur staðið yfir undanfarna mánuði hjá Icelandair. Stefnt er að því þotan fari í sitt fyrsta áætlunarflug þann 10. desember. Gert er ráð fyrir að það verði til Stokkhólms í Svíþjóð.
