Vegna hamfaraflóðanna í Valensía í október varð töf á afhendingu klementínanna til Íslands. Eins og fram hefur komið í fréttum létust yfir 200 í flóðunum auk þess sem þúsundir misstu heimili sín og lífsviðurværi.
„Það stefnir í að framboð á klementínum dragist verulega saman hjá okkur þetta árið vegna rigninganna í Valencia,“ segir Jóhanna Þorbjörg Jónsdóttir framkvæmdastjóri Banana sem hafa flutt klementínurnar inn síðustu áratugi.
Fyrri ár hafa klementínurnar verið komnar í verslanir í um upphafi nóvembermánaðar.
„Nýjustu áætlanir benda til þess að það gæti endað þannig að við fáum aðeins 25 prósent af magni síðustu ára fyrir þessi jól. Við erum virkilega leið yfir þessum hörmungum sem hafa dunið yfir á Spáni og þá aðallega í Valencia og vonum að ræktendur nái sé fljótt á strik aftur,“ segir Jóhanna Þorbjörg.
Hún segir að vegna minna framboðs verði einhver verðhækkun á klementínukössunum. Þeir verði seldir í almennar verslanir en líka til fyrirtækja.
Kassinn kostaði í fyrra í Bónus 1.098 krónur á meðan hann kostaði sem dæmi 789 krónur í Hagkaup fyrir 10 árum og 898 krónur í Bónus árið 2020. Kassinn hefur síðustu ár innihaldið 2,3 kíló af klementínum.