„Það hitti svo skemmtilega á að við vorum að gefa út sitthvora bókina, ég og barnabarnið mitt hún Embla,“ segir Halla Jónsdóttir rithöfundur. Embla segir ömmu sína frábæran stuðning.
Sú fyrsta til að styðja hana
„Hún var sú fyrsta sem sagði við mig að ég gæti virkilega skrifað bók og tók því markmiði bara mjög alvarlega þegar ég var mjög lítil og sagðist ætla að skrifa alvöru bók, þá var amma eiginlega bara sú eina eða með þeim fáu sem sagði: Já, það er flott hjá þér! Og fór ekki að hlæja og ég kann mjög mikið að meta það og tók það algjörlega með mér inn í þennan feril.“
Bók Emblu er barna- og unglingabók en bók Höllu er ljóðabók. Halla segir barnabarnið duglegt að koma í heimsókn. „Embla kom með prufueintakið sitt annað hvort sama dag eða daginn eftir að ég fékk mitt og það var fallegur haustdagur og við vorum búin að sitja og spjalla og gleðjast saman yfir því. Svo fór Embla út á pall og það var glampandi sólskin og svo fallegir haustlitir og hélt þeim báðum saman bókunum og tók mynd. Þetta var ofboðslega skemmtilegt.“