Aron Einar var valinn í landsliðshópinn fyrir leikina gegn Svartfjallalandi og Wales í Þjóðadeildinni en slétt ár er síðan hann spilaði leik fyrir Íslands hönd síðast. Aron Einar hefur verið í meiðslavandræðum síðustu mánuðina.
Aron Einar var í byrjunarliðinu gegn Svarfjallalandi sem er í gangi þessa stundina en náði því miður ekki mörgum mínútum inni á vellinum. Eftir tæplega tuttugu mínútna leik lagðist Aron Einar í jörðina og virtist halda um aftanvart lærið á sér.
Sjá mátti niðurbrotinn landsliðsfyrirliða á vellinum og á látbragði hans var augljóst að hann yrði að fara af velli sem síðan varð rauninn.
Guðlaugur Victor Pálsson kom inn í miðvarðastöðuna í stað Arons Einars og skömmu síðar skoruðu Svartfellingar mark sem síðan var reyndar dæmt af vegna rangstöðu.
Leikur Íslands og Svartfjallalands er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport. Að leik loknum verður leikurinn síðan gerður upp af þeim Stefáni Árna Pálssyni og sérfræðingunum Lárusi Orra Sigurðssyni og Alberti Brynjari Ingasyni.