Erlent

Hverfa aftur til for­tíðar vegna gervi­hnatta­truflana Rússa

Kjartan Kjartansson skrifar
Í tvígang hefur það gerst að flugvélar Finnair hafi ekki getað lent í Joensuu í Austur-Finnlandi vegna truflana á staðsetningarkerfi í sumar. Myndin er úr safni og er frá Vantaa-flugvelli í Helsinki.
Í tvígang hefur það gerst að flugvélar Finnair hafi ekki getað lent í Joensuu í Austur-Finnlandi vegna truflana á staðsetningarkerfi í sumar. Myndin er úr safni og er frá Vantaa-flugvelli í Helsinki. Vísir/Getty

Gamaldags fjarlægðarvitar hafa verið teknir aftur í notkun á flugvöllum í austanverðu Finnlandi vegna viðvarandi truflana á gervihnattastaðsetningarkerfum. Dæmi eru um að flugvélar hafi ekki getað lent vegna truflananna.

Flestar flugvélar reiða sig á staðsetningarkerfi sem byggja á merkjum frá gervihnöttum. Veruleg aukning hefur orðið á truflunum á þessum kerfum frá því að Rússar hófu allsherjarinnrás sína í Úkraínu árið 2022, ekki síst við Finnlandsflóa og á Eystrasalti.

Finnsk stjórnvöld telja að Rússar standi fyrir truflunum á gervhnattamerkjunum og fölsunum á þeim til þess að verja olíuhafnir sínar og fela slóð flutningaskipa sem brjóta gegn viðskiptaþvingunum vestrænna ríkja. Þetta hefur leitt til þess að skip hafa farið af leið og villst. Finnska strandgæslan hefur þurft að vara skip við því að þau stefni í strand af þessum sökum.

Rússar hafna því að koma nálægt truflununum.

Nú kveður svo rammt að þessum truflunum að stjórnendur þriggja flugvalla í austanverðu Finnlandi hafa ákveðið að draga fram gamla fjarlægðarvita til að hafa til taks þegar vart verður við truflanir á gervihnattakerfum. Vitarnir eru þegar komnir í notkun í Joensuu og Savonlinna og verða bráðlegar komnir upp við Lappeenranta-flugvöll, að sögn finnska ríkisútvarpsins YLE.

Vitarnir voru notaðir frá 7. áratug síðustu aldar. Þeir gefa frá sér útvarpsbylgjupúls sem móttakarar í flugvélum geta notað til þess að reikna út staðsetningu sína. Gervihnattastaðsetningarbúnaður hefur leyst þá tækni að mestu af hólmi.

Innanlandsflugvél á leið frá Helsinki þurfti frá að hverfa vegna truflana á GPS-merki þegar hún hugðist lenda í Joensuu í júní. Önnur flugvél Finnair gat heldur ekki lent í Joensuu af sömu sökum í ágúst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×