Hakan Calhanoglu skoraði eina mark leiksins þegar Inter tók á móti Arsenal í gær. Markið kom úr vítaspyrnu í uppbótartíma. Inter hefur ekki enn fengið á sig mark í Meistaradeildinni.
Ángel Correa skoraði sigurmark Atlético Madrid gegn PSG þegar þrjár mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma, 1-2. Warren Zaïre-Emery kom Parísarliðinu yfir en Nahuel Molina jafnaði fyrir Spánverjana. Correa skoraði svo sigurmarkið á elleftu stundu.
Robert Lewandowski skoraði tvö mörk þegar Barcelona vann Rauðu stjörnuna, 2-5, í Belgrad. Pólski framherjinn hefur nú skorað 99 mörk í Meistaradeildinni og vantar aðeins eitt mark til að verða sá þriðji til að skora hundrað mörk í keppninni, á eftir Cristiano Ronaldo og Lionel Messi. Inigo Martínez, Raphinha og Fermín López skoruðu einnig fyrir Barcelona í gær. Silas Katompa Mvumpa og Felício Milson skoruðu mörk Rauðu stjörnunnar sem hefur tapað öllum fjórum leikjum sínum í Meistaradeildinni.
Eftir tvö töp í röð sigraði Bayern München Benfica, 1-0, á heimavelli. Jamal Musiala skoraði eina mark leiksins á 67. mínútu.
Aston Villa tapaði sínum fyrsta leik í Meistaradeildinni þegar liðið laut í lægra haldi fyrir Club Brugge, 1-0. Hans Vaneken skoraði markið úr víti í upphafi seinni hálfleiks. Tyrone Mings, varnarmaður Villa, gerði skelfileg mistök í aðdraganda vítisins.
Atalanta hélt hreinu í fjórða sinn í jafn mörgum leikjum í Meistaradeildinni er liðið bar sigurorð af Stuttgart, 0-2. Ademola Lookman og Nicolo Zaniolo skoruðu mörk ítalska liðsins.
Hinn tvítugi Karim Konaté skoraði tvívegis þegar Red Bull Salzburg vann sinn fyrsta leik í Meistaradeildinni, 1-3 gegn Feyenoord. Daouda Guindo skoraði einnig fyrir austurrísku meistarana en Anis Hadj Moussa gerði mark Hollendinganna.
Brest heldur áfram að gera frábæra hluti í Meistaradeildinni og vann 1-2 sigur á Sparta Prag á útivelli. Edimilson Fernandes skoraði fyrir Brest og Kasper Kairinen gerði svo sjálfsmark. Victor Olatunji lagaði stöðuna fyrir Sparta Prag.
Shakhtar Donetsk vann góðan sigur á Young Boys í Gelsenkirchen í Þýskalandi, 2-1. Kastriot Imeri kom Svisslendingunum yfir en Oleksandr Zubkov og Heorhiy Sudakov svöruðu fyrir Úkraínumennina.
Öll mörkin úr Meistaradeildinni í gær má sjá hér fyrir ofan.