Þetta kemur fram í Bítinu á Bylgjunni. Soffía Dögg heldur úti sjónvarpsþáttunum Skreytum hús og samnefndri vefsíðu. Nýja serían hófst í vikunni og er fyrsti þáttur á Vísi. Soffía tekur fram að hún komi sjálf af langri línu geymara en hún og systkini hennar aðstoðuðu foreldra sína við að tæma húsið sitt í sumar þegar þau fóru á hjúkrunarheimili.
Snýst um að einfalda líf sitt og barnanna
„Við erum geymarar af guðs náð. Það er pínu lítið kaldhæðnislegt að ég sé að tala um þetta, kona með fullt háaloft af jóladóti,“ segir Soffía á léttu nótunum í Bítinu. Hún segist sjálf tengjast sínum hlutum tilfinningalegum böndum en sænska hreinsunin snúist um að einfalda lífið.
„Hvað er það sem verður geymt eftir þinn dag? Við erum að geyma svo mikið ógrynni af hlutum sem skipta engan máli nema mig eða þig,“ segir Soffía sem bendir á að það sé frábært að fara að huga að þessum málum þegar fólk er komið á miðjan aldur. Það sé alls ekki of snemmt þegar fólk sé orðið 50 ára.
„Hugsaðu samt um það að síðan fer brekkan að verða aðeins brattari. Þegar maður fer að eldast þá verður allt aðeins erfiðara og erfiðara. Þegar þú ert kona og ferð til kvensjúkdómalæknis á milli fertugs og fimmtugs þá er farið að spyrja þig spurninga út í heilsufar og þá er spurt hvernig ertu andlega ertu ennþá með þor, ertu ennþá með þrek, ertu orðin rög við að gera hlutina og maður missir oft kraftinn og hlutirnir stækka í augunum á manni og verða ótrúlega stórir þannig þú þarft að byrja á þessu áður en þú ferð að slæda niður brekkuna.“