Eiríkur Bergmann stjórnmálafræðiprófessor við háskólann á Bifröst hafði numið þessa þróun og spáð fyrir um sókn Viðreisnar.
„Sérstaklega eftir að Sjálfstæðisflokkur, og að einhverju leyti Samfylking, tóku upp aðeins harðari talsmáta gagnvart aðkomufólki. Frjálslynda svæðið var svolítið að opnast og Viðreisn hefur tekist að stökkva inn í það og rís núna allnokkuð,“ segir Eiríkur.
Samfylkingin heldur áfram að dala lítillega á milli kannanna og Sjálfstæðisflokkurinn virðist standa nokkurn veginn í stað. Í síðustu könnunum og alveg síðan um miðjan ágúst hefur Sjálfstæðisflokkurinn í Maskínukönnunum rokkað á milli 13,4% og upp í 13,9%. Þrátt fyrir afdrifaríka ákvörðun formanns flokksins um stjórnarslit virðist hún ein og sér ekki hafa valdið neinum straumhvörfum hvað fylgið varðar. Eiríkur segir að svo virðist sem að Sjálfstæðisflokknum hafi tekist að hægja á blæðingunni yfir til Miðflokksins.
„Með svona harðari tóni gagnvart aðkomufólki en þá missir hann frjálslynda fylgið hinum megin út og þá yfir til Viðreisnar“

Eiríkur bendir á að samkvæmt könnuninni mælist einvörðungu sex flokkar inni á þingi en bæði Vinstri græn og Píratar, sem eiga fulltrúa á Alþingi, mælast undir þröskuldinum. Það sama á við um Sósíalista, Lýðræðisflokkinn, Ábyrga framtíð og Græningja.
„Atkvæði allra þessara flokka falla þá dauð niður þannig að það yrði ansi mikið af dauðum atkvæðum í þessum kosningum því það eru bara sex flokkar samkvæmt þessu sem mælast inni. Botnbaráttan er alveg svakalega hörð.“
Fylgi Samfylkingarinnar dregst ögn saman á milli kannanna. Toppaði hún of snemma?
„Það má kannski segja það að einhverju leyti. Þetta á nú eftir að koma allt saman í ljós þegar talið verið upp úr kjörkössunum. Flokkurinn reis náttúrulega í svimandi hæðir og það var kannski aldrei viðbúið að hann myndi halda öllu því fylgi sem að flokknum sópaðist um tíma.“