Nikótínpúðar og rafrettur hafa almennt verið undanþegnar gjaldtöku sem lögð er á áfengi og tóbak. Nú boðar Sigurður Ingi Jóhannsson, starfandi fjármálaráðherra, breytingu þar á.
Í bandorminum er lagt til að tekið verði upp tuttugu krónu gjald á hvert gramm nikótínvöru eins og púða sem seldir eru í dósum. Þá er lagt til fjörutíu króna gjald af hverjum millílítra af vökva í rafrettum.
Gjaldið nær ekki til rafrettna sem eru flokkaðar sem lækningatæki né áfyllinga á slíkar rafrettur. Það nær heldur ekki til nikótínvara sem eru markaðssettar sem lyf og eru flokkaðar sem slík í lyfjalögum. Þar er átt við nikótíntyggjó og plástra sem seldir eru í apótekum.
Verðhækkun á nikótínpúðadós með gjaldtökunni er áætluð þrjú hundruð krónur í greinargerð með frumvarpinu. Til samanburðar er þar nefnt að tóbaksgjald af einum pakka af vindlingum nemi 604 krónum. Gjaldið af rafrettuvökvanum hækkaði verðið á einnota rafrettu með tveimur millílítrum af vökva um áttatíu krónur.
Vísað er til þess að notkun nikótínpúða hafi aukist hröðum skrefum á Íslandi undanfarin ár. Um þriðjungur ungra karlmanna notaði slíka púða daglega í fyrra en hlutfallið var fimmtungur árið 2020. Rafrettunotkun hafi einnig verið hlutfallslega mikil á meðal ungs fólks. Um sjö prósent fólks á aldrinum 18-34 ára reyki rafrettur daglega.
Kallað hafi verið eftir því að stjórnvöld brygðust við útbreiddri notkun nikótínvara. Reglur um aldurtakmörk, sýnileikabann, bann við notkun og sölu á tilteknum stöðum hafi dugað skammt og notkunin aukist ár frá ári. Þörf hafi því verið á að grípa til frekari aðgerða til að sporna gegn neyslu barna og ungmenna á vörunum.