Í færslu á Facebook bendir þingmaðurinn á að Ragnar hafi sjálfur sagt á dögunum að hugmyndir um þátttöku stjórnmálamanna í kjarasamningum væru fráleitar og myndu aldrei ganga upp.
Vilhjálmur er þarna að vísa í viðbrögð Ragnars við ummælum sem Vilhjálmur lét falla í hádegisfréttum Bylgjunnar í tengslum við frumvarp um afnám stimpilgjalda, þar sem hann sagði að ekki hefði verð lögð áhersla á afnám gjaldanna við samningaborðið.
Þingmenn hefðu því miður ekki sæti við borðið þrátt fyrir að kjarasamningar hefðu mikil áhrif á störf þingsins.
Ragnar Þór brást við með því að segjast ánægður með tillögur um afnmám stimpilgjalda en blés á aðkomu þingsins að samningaborðinu.
„Hugmynd um að þingmenn komi með beinum hætti að kjarasamningum er auðvitað fráleit hugmynd og myndi aldrei ganga upp. Við værum örugglega ekki búin að gera kjarasamning síðustu tíu árin ef svo væri,“ sagði hann.
Í Facebook-færslu sinni segir Vilhjálmur það skjóta nokkuð skökku við að Ragnar hyggist nú bæði sækjast eftir þingsæti og sinna áfram störfum sem formaður VR á sama tíma.
„Það virðist ekki það sama eiga við um hann sjálfan og aðra, enda tilkynnti hann í gær að hann hygðist bjóða sig fram til þings og það hefði ekki áhrif á störf hans hjá VR á meðan. Sannarlega, það gildir ekki það sama um Jón og séra Jón.“