Sport

Ís­lenska ungmennaliðið vann Evróputitilinn

Valur Páll Eiríksson skrifar
Íslenska liðið fagnar.
Íslenska liðið fagnar. Mynd/Fimleikasambandið

Ungmennalið Íslands varð í dag Evrópumeistari í blönduðum flokki unglinga á EM í Bakú. Keppt verður í fullorðinsflokki á morgun.

Íslenska liðið þótti líklegt til árangurs en það stóð sig best í undanúrslitum í fyrradag með heildareinkunn upp á 50.600 af gólfi, stökki og trampólíni. 

Það bætti um betur í dag og náði í heildareinkunn upp á 51.600 og marði sigurinn, með 0.200 stigum meira en Svíþjóð sem hlaut 51.400. Tilfinningarnar voru eftir því miklar þegar úrslitin lágu fyrir.

Bretar urðu þriðju með 50.800, Danmörk hlaut 49.950 og Noregur rak lestina með 44.600.

Í stúlknaflokki hlaut Ísland brons. Í jafnri toppbaráttu var Ísland með 48.950 stig á eftir Dönum og Svíum. Danmörk fagnaði sigri með 50.250 stig og Svíþjóð fékk silfrið með 49.750 stig.

Í drengjaflokki hafnaði íslenska liðið í fjórða sæti með 46.000 stig, töluvert frá Dönum sem fögnuðu sigri með 56.300 stig.

Keppt verður til úrslita í fullorðinsflokki á mótinu á morgun þar sem Ísland er í úrslitum í bæði kvennaflokki og blönduðum flokki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×