Fótbolti

Viður­kennir að hafa tekið upp kynlífsmyndbönd í ó­leyfi

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hwang Ui-Jo í leik með Norwich City.
Hwang Ui-Jo í leik með Norwich City. getty/Michael Driver

Hwang Ui-jo, sem hefur leikið 62 leiki og skorað nítján mörk fyrir suður-kóreska fótboltalandsliðið, hefur viðurkennt að hafa tekið upp kynlífsmyndbönd í óþökk rekkjunauta sinna.

Hwang mætti fyrir rétt í Seúl í dag þar sem hann baðst afsökunar á að hafa tekið upp kynlífsathafnir sínar og tveggja bólfélaga sinna. Hann gerði þetta fjórum sinnum á tímabilinu júní til september 2022.

Upp komst um tilvist myndbandanna þegar mágkona Hwangs dreifði þeim á samfélagsmiðla í sumar til að reyna að féflétta hann. Hún var dæmd í þriggja ára fangelsi í síðasta mánuði. Hwang var hins vegar kærður þegar upp komst að hann tók myndböndin upp í óleyfi.

„Ég mun ekki gera neitt rangt í framtíðinni og gera mitt besta sem fótboltamaður. Ég bið fórnarlömbin sem urðu fyrir barðinu á mér innilega afsökunar og er miður mín yfir vonbrigðunum sem ég hef valdið öllum þeim sem hafa stutt mig og þykir vænt um mig,“ sagði Hwang.

Þessi 32 ára leikmaður var á mála hjá Nottingham Forest um tveggja ára skeið en lék aldrei fyrir liðið. Í sumar fór hann svo til Alanyaspor í Tyrklandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×