Þann 29. október munu félagsmenn Kennarasambandsins í níu skólum um allt land leggja niður störf, sumir ótímabundið en aðrir tímabundið. Allt fer þetta eftir því hvort samninganefndir ríkis, sveitarfélaga og Kennarasambandsins nái saman í tæka tíð.
Inga Rún Ólafsdóttir formaður samninganefndar fyrir hönd Sambands íslenskra sveitarfélaga, segir að mikil alvara sé komin í málið nú þegar boðað hefur verið til verkfalla.
„Okkar ábyrgð er mikil að finna lausnir sem leysa þau.“
Ber ennþá mikið í milli?
„Þeir hafa ekki lagt fram formlega kröfugerð og því vitum við ekki nákvæmlega hvað þarf til að leysa verkfallið en við erum svona að reyna að komast að því í samtali okkar í dag, hvað þarf til.“
Framhaldið óljóst
Líkt og landsmenn vita sprakk ríkisstjórnin á dögunum og mikil óvissa hefur fylgt í kjölfarið.
Þessar vendingar í pólitíkinni – þetta kannski snertir ekki það sem þið gerið hérna í dag eða hvað?
„Auðvitað getur það haft einhver áhrif en að sjálfsögðu erum við að vinna okkar vinnu og það er bara mjög mikilvægt að hún sé ekki trufluð af neinu þannig að við höldum bara hér ótrauð áfram.“
Heldurðu að það sé möguleiki að afstýra verkföllum?
„Það verður að koma í ljós,“ sagði Inga Rún Ólafsdóttir, formaður samninganefndar hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga.
Verkföllin skerpi fókusinn
Magnús Þór Jónsson, formaður Kennarasambandsins mætti jákvæður og glaðbeittur til fundarins í morgun og sagðist telja að yfirvofandi verkföll flýti vinnunni.

„Ég hef nú trú á því. Við erum öll reynslumikið fólk við borðið og við þekkjum að þetta er hluti af svona viðræðum en ég held að það stilli fókusinn að við vitum af því að við höfum ákveðinn dag sem við viljum hafa lokið samningi.“
Skiptir þessi dagur máli? Er hann þýðingamikill í þínum huga hvað framhaldið varðar?
„Algjörlega. Ég held að allir dagar fram að 29. október og skiptir mjög miklu máli og þessi klárlega er upphafið að vegferð sem við erum að stýra okkur inn á. Þannig að já, hann skiptir mjög miklu máli,“ segir Magnús Þór.