Skoðun

Ó­þarfa steinar í götunni

Teitur Björn Einarsson skrifar

Reynslusögur og umkvartanir einstaklinga og fyrirtækja af takmörkuðum fyrirsjáanleika við leyfisveitingarferli hins opinbera eru ekki nýjar af nálinn og mýmargar. Í skýrslu umboðsmanns Alþingis fyrir árið 2022 kemur fram að löng málsmeðferð sé algengasta ástæða kvartana til embættisins. Ekki verður lengur við unað. Það er enda ekki hlutverk hins opinbera að leggja óþarfa stein í götu aðila sem hyggja á framkvæmdir.

Á Alþingi í dag mælti ég því fyrir frumvarpi til breytinga á lögum til að hraða málsmeðferð leyfismála. Meginmarkmið frumvarpsins er að tryggja að tímafrestir umsagnaraðila í leyfis- og skipulagsferli séu virtir. Hafa verið hnökrar þar á sem valdið hafa ítrekuðum töfum á framkvæmdum. Frumvarp þetta felur því í sér nauðsynlegar breytingar svo mikilvægar innviðaframkvæmdir tefjist ekki von úr viti og framkvæmdaraðilar geti almennt búið við meiri vissu um framvindu verkefna sem þeir hafa tekið að sér og aðlagað aðra þætti þess að ferlinu.

Hljóti frumvarpið brautargengi verður sú breyting á að virði umsagnaraðili ekki setta tímafresti vegna leyfisveitinga þá verði litið svo á að þögn sé sama og samþykki. Með öðrum orðum verður óheimilt að tefja framvindu máls dragi stofnun það fram yfir tímafrest að skila umsögn. Afar brýnt er að skýrir tímafrestir séu til staðar og að þeir séu virtir.

Hið opinbera þarf að leita leiða til að draga úr óhóflega löngum málsmeðferðartíma og þar skiptir aðhald laganna miklu máli. Markmið frumvarpsins er þannig fyrst og fremst að styrkja réttindi borgaranna, tryggja góða stjórnsýsluhætti og fyrirsjáanleika, einfalda regluverk og auka skilvirkni laganna. Því miður hefur skort á þingmannamál sem hafa sambærileg markmið þó að ekki veiti af.

Höfundur er þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×