Gengi Oculis hefur hækkað mikið í mánuðinum og stendur nú í 1.870 krónum, hærra en nokkurn tímann. Gengið hefur nú hækkað um 10,65 prósent frá dagslokum þann 23. apríl, þegar Oculis var skráð hérlendis.
Flugfélagið Play var eina félagið á aðalmarkaði sem hækkaði meira en Oculis en gengi þess hækkaði um 12,36 prósent og stendur nú í tveimur krónum á hlut. Athygli vekur að velta með bréf Play var aðeins fimm milljónir króna í dag.
Amaroq rauk upp eftir kaup forstjórans
Þá hækkaði gengi hlutabréfa í námafélaginu Amaroq hressilega í dag, um 7,49 prósent. Félagið tilkynnti í dag að Eldur Ólafsson, forstjóri félagsins, hefði keypt 300 þúsund hluti á 99 krónur á hlut. Þar með er hlutur hans í félaginu alls 2,9 prósent.
Sá hlutur er 1,3 milljarða króna virði eftir hækkanir dagsins.
Aðeins eitt félag lækkaði
Dagurinn var góður í Kauphöllinni og úrvalsvístalan hækkaði um 2,18 prósent. Gengi allra félaga utan sex hækkaði í dag. Fimm félög stóðu í stað og gengi Ölgerðarinnar lækkaði um 0,57 prósent.