Viðskiptavinum býðst að bæta 500 krónum við innkaup sín sem renna til söfnunarinnar og mun Hagkaup bæta við þá upphæð.
Hönnuður Bleiku slaufunnar í ár er Sigríður Soffía Níelsdóttir og er slaufan í ár þrjú eldblóm sem mynda skínandi blómakrans sem lítur út fyrir að hafa verið dýft ofan í fljótandi málm. Skilaboðin með slaufunni eru einstaklega falleg: „Allt tekur enda - ekkert er varanlegt“. Augnablikið þegar blómin springa út er ákveðinn hápunktur en mörgu þarf að huga að til að plantan blómstri. Að jafna sig eftir veikindi er svipað.
Því meira sem við hlúum að fólkinu okkar eftir meðferð - því líklegra er að það blómstri aftur.
Aðstandendur, ókunnugir sem bjóða góðan daginn, þeir sem að styðja við, peppa og segja þér að gefast ekki upp og trúa á þig hafa meiri áhrif en margan grunar.
Viðbótarstyrkur frá Hagkaup
Hagkaup hefur síðustu ár tekið virkan þátt í átakinu með því að selja Bleiku Slaufuna í verslunum sínum auk þess sem viðskiptavinum gefst kostur á að bæta 500 kr. styrk til Bleiku slaufunnar við innkaup sín á sjálfsafgreiðslukössum en Hagkaup bætir svo við þá upphæð.
„Fjárhagslegur stuðningur einstaklinga og fyrirtækja við átak á borð við Bleiku slaufuna er ómetanlegt framlag í baráttunni við krabbamein og undirstaða þess að félagið geti áfram sinnt þessum mikilvægu verkefnum. Samstarf Krabbameinsfélagins og Hagkaups hefur verið afar ánægjulegt og árangursríkt og viljum við þakka Hagkaup fyrir sinn mikilvæga stuðning til félagsins og öllum þeim sem nýta sér þessa frábæru styrktarleið af alhug fyrir stuðninginn. segir Árni Reynir Alfredsson forstöðumaður fjáröflunar og markaðsmála hjá Krabbameinsfélaginu.
Málefni sem snertir okkur öll
,,Okkur í Hagkaup finnst það bæði sjálfsagt og gott að styrkja átakið með þeim hætti sem við höfum gert síðustu ár og erum mjög þakklát okkar viðskiptavinum fyrir þeirra framlag til verkefnisins.
Við höfum því miður flest, ef ekki öll, einhver tengsl við krabbamein með einhverjum hætti eða í gegnum einhvern sem við þekkjum.
Við erum sannarlega þakklát Krabbameinsfélaginu fyrir það einstaka og mikilvæga starf sem þau vinna og erum virkilega stolt af því að geta tekið þátt í þessu átaki og hvetjum að sjálfsögðu alla til þess að gera það," segir Lilja Gísladóttir sérfræðingur markaðsmála hjá Hagkaup.
Hagkaup selur Bleiku slaufuna í verslunum sínum og í vefverslun og hefur salan gengið vonum framar síðustu ár og seldist til að mynda upp á met tíma á síðasta ári.
,,Við viljum leggja þessu verðuga málefni lið á þann hátt sem við getum og höfum síðustu ár selt upp allar þær slaufur sem við höfum fengið til þess að selja. Við vöndum okkur við að gefa slaufunum gott rými og sýnileika í verslunum okkar og salan á Bleiku slaufunni hefur aukist í Hagkaup ár frá ári svo við eigum ekki von á neinu öðru en að það verði með sama móti í ár," segir Rakel Ósk Hreinsdóttir vörustjóri snyrtivöru og fatnaðar hjá Hagkaup.