Erlent

Gerðu um­fangs­mikla at­lögu að leið­toga Hezbollah

Samúel Karl Ólason skrifar
Reykur frá árásinni séður frá öðru hverfi Beirút.
Reykur frá árásinni séður frá öðru hverfi Beirút. AP

Ísraelski herinn gerði fyrir skömmu umfangsmiklar árásir á suðurhluta Beirút í Líbanon, sem sagðar eru hafa beinst að höfuðstöðvum Hezbollah-samtakanna og Hassan Nasrallah, leiðtoga þeirra.

Svo virðist sem að um stærstu árás Ísraela á Beirút frá því þeir fóru að skiptast á skotum við Hezbollah í október í fyrra sé að ræða. Reuters hefur eftir heimildarmanni sínum að nokkrir af háttsettum leiðtogum Hezbollah hafi verið þar sem loftárásirnar voru gerðar.

Heimildarmenn fréttaveitunnar í Líbanon segja að háttsettir leiðtogar Hezbollah séu tíðir gestir á svæðinu þar sem árásin var gerð.

Ekki liggur fyrir hvort Nasrallah, eða aðrir leiðtogar voru felldir í árásinni. Ísraelskir fjölmiðlar segja að verið sé að kanna hvort Nasrallah hafi verið í höfuðstöðvunum þegar árásin var gerð. Miðlar sem tengjast Hezbollah segja Nasrallah á lífi og í öruggu skjóli. AFP hefur það sama eftir heimildarmanni sínum en samtökin hafa enn ekkert gefið út.

Þá er ekki ljóst hvort óbreyttir borgarar féllu en líkur eru á því að þeir hafi verið margir, miðað við umfang árásanna og að enginn var varaður við þeim, eins og Ísraelar hafa oft gert áður.

Nokkrar byggingar virðast hafa verið jafnaðar við jörðu í árásunum í Dahiyeh, úthverfi Beirút. AFP fréttaveitan hefur eftir heimildarmanni sem tengist Hezbollah að sex byggingar hafi verið jafnaðar við jörðu en aðrir fjölmiðlar hafa talað um fjögur fjölbýlishús.

Í yfirlýsingu frá ísraelska hernum segir að árásir hafi verið gerðar á höfuðstöðvar Hezbollah. Leiðtogar samtakanna hafi vísvitandi byggt þær höfuðstöðvar undir íbúðarhúsum svo óbreyttir borgarar hafi getað verið notaðir til að skýla þeim.

Fréttin verður uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×