„Þetta er pínulítil hugmynd sem stækkaði og stækkaði,“ segir Sunna Hauksdóttir ein skipuleggjenda og meðlima góðgerðarnefndarinnar. Hún segir nefndina upprunalega hafa ákveðið að hafa tónleikana í sal innan skólans en eftir því sem á leið hafi þeir stækkað og stækkað og verði nú haldnir í stóra sal Háskólabíós.
Sunna segir nefndina á hverju ári velja eitthvað málefni sem þau styrkja. Það hafi legið beint við að velja Minningarsjóð Bryndísar Klöru í ár.
„Ein í nefndinni var besta vinkona hennar,“ segir Sunna. Auk þess var Bryndís Klara nemandi sjálf í skólanum. Hennar hefur verið minnst þar með ýmsum hætti frá því að hún dó.
„Það var engin spurning um að við myndum gera eitthvað fyrir þetta málefni. Það hefur oft verið pæling að vera með tónleika. Við söfnum alltaf fyrir eitthvað eitt málefni og eftir þennan atburð var gefið að við myndum safna fyrir sjóðinn.“
Sunna segir alla tónlistarmenn gefa vinnu sína.
„Háskólabíó tekur líka þátt í þessu með okkur. Við erum með forsölu fyrir nemendur, forráðamenn og starfsfólk og vonandi fyllist viðburðurinn þannig,“ segir Sunna.
Auk þess standi til að bjóða fjölskyldu hennar og einhverjum úr Salaskóla þar sem Bryndís Klara var líka nemandi.
Telur að það seljist upp
Verðir einhverjir miðar eftir þá verða þeir settir í almenna sölu. Sunna á ekki endilega von á að þörf verði á því.
„Þetta hefur farið fram úr öllum okkar væntingum.“
„Ég hlakka mjög mikið. Ég vona að við náum að fylla salinn og að við getum glaðst í minningu Bryndísar Klöru
Fyrir nemendur í Verzlunarskólanum og alla undir 18 kostar miðinn 4.990 krónur en fyrir aðra 5.990.
Halda áfram í febrúar
Sunna segir nefndina alls ekki hætta eftir þetta. Í febrúar sé góðgerðarvika skólans og þá verði einblínt á að safna fyrir Minningarsjóð Bryndísar Klöru.