Skoðun

Er lýð­ræðis­legt að senda vopn til Úkraínu?

Hildur Þórðardóttir skrifar

Maður nokkur sagði mér að hann væri að styðja lýðræði með því að mótmæla ekki vopnakaupum yfirvalda fyrir íslenska skattpeninga.

Hvað með lýðræði okkar hér á landi? Höfum við fengið að ræða og kjósa um hvort við viljum kaupa vopn og senda út?

Við Íslendingar höfum alltaf verið stolt af því að vera friðsöm, herlaus og vopnlaus þjóð allt frá sjálfstæði landsins, fyrir utan útlenskan her sem tók sér bólfestu hér í nokkra áratugi. Við tökum ekki þátt í stríðum annarra landa og sú aðstoð sem við veitum stríðshrjáðum löndum er að senda hjúkrunarfólk og flugvallarstarfsmenn á svæðið. Þetta hefur veitt okkur öryggi og góðvild annarra þjóða.

Nú allt í einu hefur ríkisstjórnin ákveðið að íslenska þjóðin sé fylgjandi stríðsrekstri, vilji ólm kaupa vopn fyrir milljarða og styðja dráp á saklausu fólki. Á fjárlagafrumvarpi næsta árs er gert ráð fyrir tæplega 7 milljörður í stríðsrekstur. Árið 2022 sendum við 2,2 milljarða og árið 2023 3,5 milljarða. Þetta gera tæpa 16 milljarða. Fengum við að ræða þetta?

Þessi vopnakaup fóru leynt og passað var að almenningur heyrði ekkert um kaupin fyrr en þau voru afstaðin. Er það lýðræði?

Með vopnakaupum eru ráðamenn að breyta Íslandi í hernaðarskotmark. Öryggi okkar er ógnað, ekki vegna innrásar Rússlands í Úkraínu, heldur vegna gjörða ríkisstjórnarinnar og ábyrgðarleysi gagnvart eigin þegnum.

Við höfum sett af stað undirskriftalista þar sem forseti er hvattur til að vísa þessu lagafrumvarpi í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er ekkert í núverandi lögum sem mælir gegn því að fjárlagafrumvarpi sé vísað til þjóðarinnar. Auk þess setti Ólafur Ragnar Grímsson þáverandi forseti fordæmi með vísu IceSave frumvarpsins til þjóðarinnar, en það frumvarp fól í sér fjárhagslegar skuldbindingar. Hægt er að skrifa undir á austurvollur.is

Höfundur er rithöfundur og fyrrum forsetaframbjóðandi.




Skoðun

Sjá meira


×